Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:14:16 (238)

1999-10-07 16:14:16# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða. Ég held að við séum að ræða eitt mesta hitamál sem tekið verður fyrir á þessu þingi. Við umræðuna hafa verið auk hæstv. iðnrh. hæstv. utanrrh. sem er hér staðgengill umhvrh., enda eðlilegt að hann sé viðstaddur slíka umræðu og í salnum áðan var hæstv. forsrh. Þetta undirstrikar vægi þessa máls og verður fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra þegar líður á umræðuna.

[16:15]

Við erum að fjalla um þáltill. um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Við flutningsmenn höfum bent á það og lagt á það ríka áherslu að aldrei verði sátt um annað en að slíkt mat fari fram enda kveðið á um það í lögum. Nú vil ég að það komi skýrt fram að ég er mjög eindreginn andstæðingur þessara virkjanaáforma og það erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við höfum beitt okkur gegn þessum áformum.

Ekki vegna þess að við séum andvíg virkjunum sem slíkum. Við viljum virkja skynsamlega og við viljum ekki spilla náttúrunni. Við viljum að menn fari varlega í sakirnar. Náttúrunni til verndar horfum við að sjálfsögðu til þeirra laga og þeirra reglna sem settar hafa verið til að verja náttúruna. Þar bendum við á lög um mat á umhverfisáhrifum og ætlumst til þess að sjálfsögðu að farið sé eftir þeim. Það verður aldrei sátt um annað eins og hv. þm., talsmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt áherslu á í sínum málflutningi en að farið verði að þessum lögum.

En við erum andvíg þessum virkjanaáformum einnig af öðrum ástæðum. Við viljum skynsamlega orkustefnu í landinu. Við viljum t.d. ekki selja erlendri stóriðju rafmagn hér á spottprís. Við viljum hafa uppi aðrar áherslur og fara aðrar leiðir í atvinnuuppbyggingu en ríkisstjórnin vill fara með því að reisa stórar málmbræðslur. Þetta eru sjónarmið okkar. Öllum tilraunum til að snúa út úr orðum okkar með orðhengishætti um það hvort við séum flokkur eða einstaklingar sem hlítum landslögum vísa ég á bug.

Að sjálfsögðu hlítum við landslögum. Við ætlumst til þess að ríkisstjórnin fari að lögum og þeim reglum sem við höfum sett okkur í lýðræðisþjóðfélagi okkar. Þess vegna krefjumst við þess að virkjunin fari í umhverfismat og erum að leggja á það áherslu.

Það hefur komið fram við umræðuna að þeir aðilar sem hafa fengið þessa þáltill. á fyrri stigum til umsagnar hafa verið henni mjög eindregið hlynntir. Stöku aðili hefur dregið í land eða jafnvel skipt um skoðun. Það kom fram fyrr í umræðunni. Það á t.d. við um Ferðamálaráð Íslands. Þar var umsögnin á þennan veg, stutt og skorinort, 10. nóv. 1998:

,,Erindið var tekið til umfjöllunar á fundi framkvæmdastjórnar Ferðamálaráðs 10. nóv. 1998,`` með leyfi forseta, ég vitna í umrætt plagg:

,,Samþykkt var á fundi framkvæmdastjórnar að senda jákvæða umsögn og hvetja til samþykktar þingsályktunartillögunnar. Virðingarfyllst, Magnús Oddsson ferðamálastjóri.``

17. ágúst 1999 berst önnur umsögn. Þar er lögð áhersla á að málið sé mjög flókið og segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

,,Með tilliti til þess að málið er flókið og viðamikið ákveður Ferðamálaráð að unnið verði að því að skilgreina hagsmuni ferðaþjónustunnar á svæðum norðan Vatnajökuls með sérstöku tilliti til orkuvinnslu og náttúruverndar. Er formanni og framkvæmdastjóra falið að setja á laggirnar vinnuhóp til að taka saman í skýrslu grunn að slíkri skilgreiningu. Gert er ráð fyrir að vinnu starfshópsins verði lokið fyrir 1. desember 1999.``

Hvað skyldi hafa gerst í millitíðinni? Búið er að skipa nýtt Ferðamálaráð. Nýr verkstjóri er kominn þar á bæ. Hann heitir ekki lengur Birgir Þorgilsson. Nei, nú heitir hann Tómas Ingi Olrich og er hv. þm.

Svona vinnur ríkisstjórnin. Það er þetta sem við skulum hafa hugfast þegar við hugleiðum orð hæstv. heilbrrh. hér í gær, sem sagði, ég vil treysta sérfræðingum okkar. Vel völdum, eftir að búið er að reka vísindasiðanefnd og skipa nýja. Þegar búið er að skipta um mannskap, áhöfn í þeim ráðum og nefndum sem ríkisstjórnin skipar í, vilja menn hlusta og treysta ráðum bestu sérfræðinga.

Vinnubrögð af þessu tagi eru aldeilis ótæk og við mótmælum þeim mjög eindregið.

Að lokum, herra forseti, hvet ég til þess að þessi tillaga til þál. verði samþykkt.