Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:11:10 (255)

1999-10-07 17:11:10# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. fyrrv. umhvrh. hefur hrifist mjög af Kreppu. Hann hefur komist í slíka kreppu að hann hefur ekki áttað sig á umræðunni sem þarna hefur verið áratugum saman. Ég hef aldrei heyrt fyrr að engum manni hafi dottið þessi kostur í hug.

Mér finnst óþarfi að snúa út úr ummælum mínum með þeim hætti sem hér er gert, að Skipulagsstofnun sé ekki treystandi eða að umhvrh. sé ekki treystandi. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef ekki gefið það í skyn með nokkrum hætti. Ég er aðeins að segja að mér finnst að e.t.v. megi greina á milli þeirra framkvæmda sem tilheyra hinu daglega lífi, vegaframkvæmda og margs konar annarra framkvæmda og hins vegar stórverkefna sem hafa mætti einhvern annan farveg fyrir. Mér finnst umræðan um Fljótsdalsvirkjun benda til þess að e.t.v. mætti líta til þess. Eða er hv. þm. Össur Skarphéðinsson á móti því að valdið sé hjá Alþingi í sem mestum mæli? Það finnst mér afar undarlegt.