Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:15:05 (258)

1999-10-07 17:15:05# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Því miður hef ég ekki getað verið viðstödd þessa umræðu í dag því að þó svo að við höfum rætt nákvæmlega þessa sömu tillögu mjög ítarlega á sumarþinginu, þá er alltaf gott að ræða málin og að menn reyni að komast nær þeim sannleika sem hvor um sig hefur, þeir sem deila um slík mál.

Þessi tillaga fjallar um að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.

Eins og kemur fram í tillögutextanum hefur virkjunarleyfi verið veitt og framkvæmdir hafa verið hafnar eins og hér hefur komið fram samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi og það er meginmálið. Framkvæmdir eru hafnar og þeim ber að halda áfram. Ég ætla ekki að deila um einstök atriði sem fram koma í greinargerð en tiltölulega framarlega í greinargerðinni kemur fram að sumum þeim sem sent hafa umsagnir um tillöguna hefur snúist hugur á því tímabili frá því að umsagnarbeiðnir voru fyrst sendar út og þar til þær umsagnir komu inn í sumar eftir að sú tillaga var send út sem til umfjöllunar var á sumarþinginu.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna sumir eru orðnir andhverfir því að þessi tillaga verði að veruleika, sem sagt að þessi tiltekna framkvæmd eigi að fara í kæruferli. Ég dreg þá ályktun að menn hafi séð að tíminn er að renna út. Nú er svo langt komið í samningum við Norsk Hydro og svo langt komið í rannsóknum sem hefur þurft að gera á virkjunarsvæðinu að það er einfaldlega komið að því að það verður að halda áfram með þessar framkvæmdir.

Ég reikna með því að tillagan verði send til umhvn. Ég skora á umhvn. að skoða hvaða áhrif þessar framkvæmdir og bygging álvers á Austurlandi muni hafa á byggðaþróun á Austurlandi og mannlíf á Austurlandi. (Gripið fram í.) Skoðið þið það, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Ég held að það sé mjög mikilvægt að t.d. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson setji sig inn í það hvernig byggðaþróun hefur verið á Austurlandi að undanförnu og hvernig sú þróun horfir núna og að mjög nauðsynlegt sé fyrir umhvn. að gera sér grein fyrir því eins og öðrum áhrifum sem af þessum framkvæmdum munu leiða.

Virkjanir á hálendinu norðan jökla, náttúruvernd, ferðaþjónusta og orkufrekur iðnaður fer ágætlega saman. Það er nauðsynlegt að leita allra skynsamlegra leiða til þess að skapa ný störf með nýjum tækifærum og það er algerlega nauðsynlegt að blása til öflugrar atvinnusóknar í fjórðungi okkar, Austfirðingafjórðungi, og kalla brottflutta og nýtt fólk til Austurlands til þess að byggja þennan fjórðung til framtíðar.

Ég heyrði það rétt þegar ég var að koma í salinn að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi það skammtímaávinning að fjölga íbúum á miðfjarðasvæðinu um um það bil 30% eins og gert er ráð fyrir að verði raunin þegar þessar framkvæmdir eru orðnar á veruleika. Ég get ekki litið á það sem skammtímaávinning í byggðamálum ef sú þróun fer af stað. Ég held að það sé miklu meira en skammtímaávinningur. Það er örugglega langtímaávinningur.

Þeir valkostir sem við höfum og stöndum frammi fyrir eru að nýta þá orku sem við eigum á Austurlandi. Þetta er endurnýjanleg orka og hlýtur að hafa þau áhrif í náttúrufari okkar að það verði til góðs. Það ber auðvitað að vanda til allra rannsókna við virkjunarframkvæmdir og hafa umhverfissjónarmið í huga og það hefur reyndar verið gert. Eins og fram hefur komið verður mjög fljótlega á borðum okkar þingmanna skýrsla um umhverfisáhrif sem hefur verið unnin. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fá þá skýrslu til umfjöllunar og getur ekki verið nema til að upplýsa okkur um það sem menn hafa deilt um í sumar.

Ég verð að segja það sem Austfirðingur að mér hlýnar afskaplega um hjartaræturnar þegar stórir hópar sunnan af landi hafa komið til að skoða okkar fallega land fyrir austan. Heilu hóparnir hafa komið í dagsferðir til þess að líta náttúruperlur Austurlands augum og ég held að það sé afskaplega gott. Því miður hefur það ekki þau áhrif að íbúum fjölgi mjög í landsfjórðungnum, en menn vita a.m.k. þó núna hvernig Austurland lítur út og það finnst mér mjög gott.

Ég vildi að lokum fá að lesa ályktun SSA sem samþykkt var í Brúarásskóla í Norður-Héraði 26. ágúst 1999. Þar leggur fundurinn áherslu á að lög í landinu heimila að ráðist verði í byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Ekkert virkjunarsvæði hefur verið eins ítarlega rannsakað og virkjunarsvæði Fljótsdalsvirkjunar enda mikilvægt að mat á umvherfisáhrifum slíks mannvirkis sé vandlega unnið. Áfram segir í ályktuninni að brýnt sé að félagsleg áhrif og umhverfisáhrif virkjunar. (Forseti hringir.) á Austurlandi verði vandlega kynnt, sérstaklega vandað til kynningar á skýrslu á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Og það verður væntanlega gert.