Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:25:59 (261)

1999-10-07 17:25:59# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram og ég vil láta hv. þm. heyra það, að meðferðin sem matið á umhverfisáhrifum gerir ráð fyrir er ekki eingöngu kæruferli. Það er einmitt að meta náttúrufar. Það er að meta áhrif á byggð og mannlíf. Það er að meta aðra valkosti sem koma til greina í málinu og það er verið að gefa almenningi tækifæri til þess að koma að málinu, gera athugasemdir sínar og fleira má telja og að lögbundnar og lögformlegar stofnanir í stjórnsýslunni komi að málinu. Allt þetta er nákvæmlega það sem er verið að biðja um að sé gert. Síðan kemur hv. þm. og ætlar að setja okkur fyrir eitthvert heimaverkefni í umhvn. Að sjálfsögðu munum við skoða þetta allt saman. Við erum nákvæmlega að biðja um það sama og þessi hv. þm.

Það er stöðugt klifað á því, og það gerir hv. þm. líka, að ekkert svæði sé jafn vel rannsakað. Það kann vel að vera að þessar rannsóknir hafi verið gerðar en það gefst ekkert tækifæri til að vísa þeim aftur til rannsóknar eins og í matinu á umhverfisáhrifum. Hvar eru þessar annsóknir sem eru meiri en nokkrar aðrar á Íslandi? Það hefur enginn séð þær. Þær liggja ekki hér fyrir. Það er verið að boða að skýrsla komi í lok þessa mánaðar og við eigum að taka þetta með einhverri skemmri skírn á nokkrum vikum og klára málið fyrir áramót, það sem búið var að liggja yfir árum og áratugum saman og biðja um að menn sætti sig við það. Er von að mönnum blöskri þessi vinnubrögð. Veraldarklukkan hefur gengið. Menn hafa gjörbreytt sjónarmiðum sínum í umhverfismálum. Við erum að biðja um nútímavinnubrögð sem upplýsa einmitt það sem hv. þm. var að biðja um með ræðu sinni.