Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:51:01 (270)

1999-10-07 17:51:01# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mátti skilja á máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, eins og gjarnan hefur komið fram í umræðu að undanförnu, í sumar og fyrravetur, að það væri nú hægt að gera eitthvað annað en að virkja í Fljótsdal og byggja álver á Reyðarfirði. En það kom náttúrlega ekki fram hvað annað á að gera.

Jafnframt kom fram hjá honum að það má virkja einhvers staðar annars staðar en á Austurlandi, t.d. gufuaflsvirkjanir. Hvað gerir það eiginlega að verkum að ekki má framkvæma neitt á Austurlandi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon?

Hjá þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. sat í og samþykkti framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun stóð til að flytja þá orku sem yrði virkjuð á Austurlandi suður á Keilisnes. Hvaða áhrif hefði það haft á byggðamál sem hv. þm. segist þó alltént hafa áhuga á? Hvernig stendur á því að Austfirðingar mega ekki nýta þá orku sem finnst í Austfirðingafjórðungi?