Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:35:47 (284)

1999-10-07 18:35:47# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn., Kristján Pálsson, á að sjálfsögðu eftir að fá að skiptast á skoðunum við mig og okkur í vinstri grænum áfram í sambandi við þetta mál því við störfum saman í umhvn. En ég vil frábiðja mér það að stefna okkar í umhverfismálum sé kölluð þráhyggja. Það hefur komið fram hjá okkur sem höfum talað hér í dag fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við erum með útrétta sáttarhönd. Sáttarboðið felst í því að Fljótsdalsvirkjunin fari í umhverfismat samkvæmt lögum og við komum til með að beygja okkur undir þann úrskurð sem kæmi út úr því mati. Ef þetta er ekki sáttarhönd hjá fólki sem er á móti stórvirkjunum á hálendinu norðan Vatnajökuls, þá veit ég ekki hvað.

Það er rangtúlkun hjá hv. þm. að segja að við séum ekki fús til sátta. Hann ætti að beina sjónum sínum að stjórnarflokkunum sem við höfum viljað meina að væru ekki fúsir til sátta, vegna þess að þeir hafa viljað undanskilja Fljótsdalsvirkjun öllu mati. Þeir hafa viljað undanskilja hana rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um mat á virkjunarkostum og það er það sem við höfum verið að gagnrýna. Við biðjum um sáttarhönd ríkisstjórnarinnar sem fælist í því að Fljótsdalsvirkjun yrði sett undir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar, Maður -- nýting -- náttúra.

Ég fagna þeirri áætlun og ég ber mikla virðingu fyrir því að sú áætlun skuli vera gerð. Hvað sem um vinnubrögðin og forræði iðnrh. í því máli má segja, þá segi ég enn og aftur að Fljótsdalsvirkjun verður að fara undir þá áætlun. Við verðum að meta hana með öðrum virkjunarkostum. Hún getur ekki verið ríki í ríkinu og fríhjólað fram hjá öllum lögum og reglum sem ekki bara Íslendingar eru búnir að vera að setja sér heldur öll þjóðríki þess siðaða heims sem við teljum okkur vera hluta af. Fólk er í áratugi búið að vinna eftir þessum lögum, lögum á borð við lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er slíkt mat sem þarf að fara fram á öllum virkjunarkostum burt séð frá því hvað var ákveðið einu sinni í gamla daga.