Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:45:35 (289)

1999-10-07 18:45:35# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki lítið úr því að hægt sé að selja hugvit. Það er hægt á Austurlandi eins og hvar annars staðar. En þeir Austfirðingar, þeir fáu sem búa á Austfjörðum og stunda atvinnugreinar af því tagi sem þingmaðurinn nefndi hafa bara ekki skapað fleiri störf þarna, því miður.

Við höfum líka þessar hugmyndir, að ferðaiðnaður geti verið ágætis atvinnugrein. Fjárfestar hafa bara ekki nokkra einustu trú á því og eru því ekki komnir þarna. Og jafnvel ferðamennirnir, þeir hafa kannski ekki trú á þessu.

Það er alveg hárrétt að það er alveg stórgóður flugvöllur á Egilsstöðum og full ástæða til að nýta hann. Það er alveg stórfurðulegt að enginn skuli nýta hann enn þá, mjög furðulegt. En það er bara enginn til þess.

Handverkshúsin, ég tek undir það að þarna eru fín handverkshús og góðir hönnuðir sem eru að gera góða hluti --- þeir eru þarna. En þeir bæta ekki við nýjum störfum. Þeir eru þarna nú þegar. Það er rétt að þarna er ýmis smáiðnaður, það vantar bara meira af honum. Ef þingmaðurinn getur bent á fleiri kosti og fengið fólk til Austurlands til þess að stunda smáiðnað þá eru allir velkomnir á Austurland --- allir, ég tek það fram.

Lyfjaiðnaður var nefndur. Því miður hefur hann ekki enn þá staðsett sig á Austurlandi. Mér þykir það mjög leitt en hann er bara ekki stundaður þar og engin sérstök teikn um það að hann muni koma þangað á næstunni. Hátækniiðnaðurinn, það er alveg eins, þar eru vissulega möguleikar en slíku hefur ekki verið komið á fót á Austurlandi. Hitakæru örverurnar eru því miður ekki staðsettar á Austurlandi en hugsanlega er hægt að vinna úr þeim þar eins og annars staðar.