Átökin í Tsjetsjeníu

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:19:39 (304)

1999-10-11 15:19:39# 125. lþ. 6.1 fundur 44#B átökin í Tsjetsjeníu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ástæða er til að hafa af því áhyggjur að á milli stórveldanna ríki gagnkvæmur skilningur á afskiptaleysi. Að hvorugt stórveldanna skipti sér af yfirgangi á yfirráðasvæði hins. Síðan fylgja allir með, þeir sem lúta forustu frá Washington annars vegar og Moskvu hins vegar. Því miður er að heyra á hæstv. utanrrh. að hann taki afstöðu með yfirgangsöflunum í Tsjetsjeníu. Hann hitti að máli utanríkisráðherra Rússlands sem hafði áhyggjur af hryðjuverkum í Kákasus og hryðjuverkum í Moskvu. Öll hljótum við að deila þeim áhyggjum. En ég er að vekja athygli á hlutskipti þeirra tugþúsunda manna sem eru að flýja sprengjuregn Rússanna í Grosní og víðar í Tsjetsjeníu. Mér fyndist það vera lágmarkskrafa að íslenska ríkisstjórnin kallaði sendiherra Rússlands í Reykjavík til fundar og kæmi á framfæri við hann kröftugum mótmælum vegna þessa stríðsreksturs.