Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:47:36 (362)

1999-10-11 18:47:36# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:47]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki sammála um það, hæstv. forsrh. og ég að vel hafi tekist til um einkavæðingu hér á landi á þessum áratug og er ég þar ekki eingöngu að horfa til þess hvernig staðið var að sölu á SR-mjöli eða Áburðarverksmiðjunni nánast á gjafaprís. Ég er ekki að tala einvörðungu hvernig rafmagnseftirlitið er illa komið eftir breytingarnar sem þar voru gerðar og mjög óhyggilega að málum staðið að mínum dómi heldur skírskota einnig til fjölmargra annarra hluta.

Varðandi allar samlíkingar við Rússland megum við ekki gleyma því að Rússland var einræðisríki þar sem fólk hafði ekki frjálsa tjáningu. Ég er hins vegar lýðræðissinni. Ég skírskota í málflutningi mínum til lýðræðisríkisins Íslands sem hefur rekið einhverja bestu heilbrigðisþjónustu sem dæmi er um. Ég er að horfa til Norðurlandanna þar sem þetta hefur einnig verið á vegum almannaþjónustunnar. Við gætum farið út í samanburð við kerfi þar sem menn nýta markaðslögmálin, t.d. í heilbrigðiskerfinu, og litið á Bandaríkin sem búa við mikla mismunun þegnanna og kostnaðarsamasta heilbrigðiskerfi í víðri veröld.

Varðandi fullyrðingar um þjónustustig og kostnað á einkavæddum rafmagnsveitum eða vatnsveitum í Bretlandi stendur fullyrðing gegn fullyrðingu. Ég er að mælast til að menn setjist yfir þessi gögn vegna þess að ég hef önnur gögn í höndum en hæstv. forsrh. og vil að við setjumst yfir þau. Ég hef líka gögn um rafmagnsveiturnar í New York-ríki þar sem repúblikanar voru að taka rafmagnsveiturnar úr höndum einkafyrirtækja vegna þess að þau tóku svo mikinn arð út úr þessum fyrirtækjum með þeim afleiðingum að rafmagnsverð æddi upp úr öllu valdi og notendur og stórfyrirtæki í New York kröfðust þess að þetta yrði tekið aftur undir almannastjórn. Það voru repúblikanar sem stóðu þannig að málum. (Forsrh.: Var það ekki einkaeinokun?) Við erum að tala endanlega um þjónustuna og hvernig þetta skilar sér til notandans.