Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:50:22 (363)

1999-10-11 18:50:22# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:50]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu núna. Ég kem hingað aftur upp vegna þess að ég hafði ekki lokið því sem ég vildi segja í andsvari við hæstv. forsrh. (Gripið fram í.) og þar er ég kannski ekki síst að tala um staðhæfingar hans um símann og þjónustu sem sú stofnun hefur veitt almenningi.

Nú kann að vera í ýmsum tilvikum að menn hafi viljað finna ýmislegt að þjónustu Landssímans og eflaust hafa menn gildar ástæður til þess í ýmsum tilvikum. En staðreyndin er sú að þetta ágæta fyrirtæki eða þessi ágæta stofnun sá okkur fyrir mjög góðri þjónustu um áratuga skeið. Þegar hún var einkavædd bjuggum við innan lands við langlægstu símgjöld í nánast víðri veröld, ég held að það hafi bara verið í víðri veröld í sambærilegum þjóðfélögum og okkar. Við fórum aftur og ítrekað yfir þetta í þingsalnum þegar umræðan fór fram um þetta.

Síðan er spurning um að þjónustan hafi batnað svo mikið í Bretlandi við einkavæðingu símans. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. hefur reynt að fara um Lundúnir og ramba þar á milli símklefa með mismunandi kort því þar gilda ekki alls staðar sömu kortin. Miklum yfirbyggingum hefur verið hlaðið á þessi fyrirtæki sem hafa sprottið upp með ærnum tilkostnaði og síðan til að hafa eftirlit með samkeppninni, eins og þarf að gera í þessum nýmarkaðsvæddu samfélögum, eru búnar til eftirlitsstofnanir. Þetta er kraftmesti iðnaður í Bretlandi, það er eftirlitsiðnaðurinn með allri samkeppninni og markaðsvæðingunni og kostar orðið ærna fjármuni.

Ég ætla að standa við það loforð mitt að fara ekki út í langa ræðu. Ég gæti auðveldlega gert það því af mörgu er að taka. En mér fannst orð hæstv. forsrh. einmitt færa sönnur á það sem við erum að segja og býr að baki þessari þáltill., nauðsyn þess að setjast yfir staðreyndir málsins. Er það rétt eða er það rangt að verð á vatni og gasi hafi lækkað við einkavæðingu? Batnaði þjónustan við það? Er það rétt eða er það rangt?

Setjumst yfir þessar staðreyndir. Skilar einkaframkvæmdin í Bretlandi lægri tilkostnaði og betri þjónustu? Er það rétt eða er það rangt? Breska þingið hefur ráðist í slíka athugun. Það fór í úttekt á t.d. tilkostnað í fangelsum sem eru núna í einkaframkvæmd. Niðurstaðan varð sú að aðstaða fanganna er miklu lakari og í þeim fangelsum tveim, það voru tvö fangelsi af nokkuð mörgum sem höfðu farið í gegnum þetta ferli þar sem tilkostnaðurinn var lægri. Þar var það vegna þess að laun starfsmanna hafa verið lækkuð svo mikið. Þetta eru bara staðreyndir mála sem breska þingið var að fara yfir. Athugunin var gerð á vegum bresku lávarðadeildarinnar. Hvers vegna í ósköpunum hræðast menn svo þessa umræðu, ég bara spyr, að þeir þora ekki að bjóða fulltrúum allra stjórnmálaflokka að setjast yfir gögnin og skoða gögnin?

Að lokum þetta. Hér á landi var ágætur fræðimaður, sem flutti erindi um reynsluna af einkavæðingu og einkaframkvæmd víðs vegar um heiminn, Brendan Martin, heitir hann. Hann flutti erindi á Hótel Loftleiðum og ég saknaði þess sáran að þangað kæmu ekki þeir sem eiga að sinna þessum málum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, einkavæðingarnefndin, til að heyra röksemdir hans. Hann tíndi til dæmi um framkvæmdina og hvernig hefði til tekist. Það sem var athyglisverðast í málatilbúnaði hans var að hann tók þau dæmi þar sem stuðningsmenn einkavæðingar og einkaframkvæmdar töldu að vel hefði tekist til og rannsakaði þau, t.d. einkavæðingu á vatni í Suður-Ameríku. Hann tók önnur dæmi, hann tók vatnsveiturnar í Stokkhólmi. Hann spurði: Hvernig hefur tiltekist í viðleitni stjórnvalda að ná niður kostnaði og bæta þjónustuna?

Það kom á daginn að þetta er fákeppnismarkaður. Þetta er allt að leita í hendurnar og krumlurnar á örfáum fyrirtækjum sem breiða sig yfir heiminn allan. Það er bara að gerast. Það eru sömu fyrirtækin sem eru með vatnsveiturnar á Suður-Englandi og vatnsveitur í Suður-Ameríku, hótelkeðjur í Frakklandi og þar með eftir götunum. Örfá fyrirtæki eru að ná tangarhaldi á almannastarfsemi víðs vegar um heiminn. En það kom á daginn að niðurstöðurnar voru jákvæðari og betri hvað snertir tilkostnað og þjónustu þar sem menn höfðu farið samvinnu- og samráðsleiðina en þar sem markaðsöflin höfðu komið við sögu.

Ég tek skýrt fram eins og ég gat um við fyrri umræðu í dag að ég er fylgjandi blönduðu markaðskerfi. Mér finnst við þurfum einvörðungu að reyna að ná samkomulagi um hvar þessar línur eigi að liggja á milli almannaþjónustu sem er í fákeppni og almennrar vöruframleiðslu sem mér finnst vera eðlilegt að sé á markaði og lúti lögmálum markaðarins. En við erum að hvetja til þess að menn setjist yfir þessi mál og skoði rökin með og móti.