Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:57:13 (364)

1999-10-11 18:57:13# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að einkavæðing hér á landi hafi verið gerð í andstöðu við starfsfólkið. Ég hef ekki orðið var við að starfsfólk hafi verið mjög andvígt einkavæðingu á viðkomandi sviðum. Til að mynda tel ég að í Landsbanka og Búnaðarbanka og annars staðar hafi einkavæðing tekist í góðri sátt við starfsfólk og það uni vel við einkavæðinguna. Það gerðist líka gagnvart sjóðunum hygg ég vera þegar þeir voru sameinaðir Fjárfestingarbanka atvinnulífsinks sem ég held að hafi verið mjög þörf aðgerð.

Af því að ég tók dæmi frá gömlum tíma um símann vil ég nefna að ég er ekki að stimpla símann sem eitthvert vont fyrirtæki eða lélegt þjónustufyrirtæki. Þvert á móti finnst mér að of hafi verið hallað á símann í umræðu á undanförnu missirum með töluverðri ósanngirni.

Í þriðja lagi vil ég nefna að ég gerði mér ferð þegar ég var í Bretlandi einhvern tíma fyrir fáeinum árum á fund eftirlitsfyrirtækis með símanum, fékk þar fund með forstjóra þeirrar eftirlitsstofnunar, sem ég man reyndar ekki í augnablikinu hvað heitir en er einhvers staðar skráð, og helstu starfsmanna hans. Ég fór yfir þau vandamál sem upp höfðu komið sem hafa verið auðvitað nokkur. Þetta er afar stórt og mikið fyrirtæki. En það var mat þessarar eftirlitsstofnunar að kostnaður hefði lækkað og þjónustan hefði batnað. Þessir aðilar höfðu ekki neina ástæðu til þess að fegra það sérstaklega í mín eyru. Þeir drógu mjög upp á yfirborðið þá vankanta sem höfðu komið upp, földu það hvergi og hvar hefði orðið að grípa inn í málið en almennt séð hafði þjónustan batnað við samkeppnina og verð lækkað.