Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:05:17 (393)

1999-10-12 15:05:17# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi löggjöf um dreifða eignaraðild í sjávarútvegi þar sem sett var hámark á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, bæði í einstökum tegundum og í samanlagðri aflahlutdeild eða heildarkvóta. Samanlagður kvóti fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila má ekki vera hærri en 8%. Hámarkið færist þó upp í 12% ef enginn einn aðili fer með stærri hlut en 20% í félaginu og engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin. En þrátt fyrir þessar leikreglur sem Alþingi samþykkti með breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða þá hefur verið vaxandi umræða í þjóðfélaginu um að eftir nokkur ár yrðu hér einungis örfá, þrjú til fimm fyrirtæki eða fyrirtækjablokkir í sjávarútvegi sem hefðu tangarhald á stærsta hluta veiðiheimildanna. Samrunaferli hefur verið í gangi í sjávarútvegi á undanförnum árum. Fyrirtæki hafa verið að sameinast öðrum eða kaupa upp minni fyrirtæki til að mæta þeim hagræðingar- og arðsemiskröfum sem stjórnendur fyrirtækjanna standa frammi fyrir.

En fleira hefur verið að gerast en að einstök fyrirtæki í sjávarútvegi sameinist og hagræði. Fyrirtæki, bæði í sjávarútvegi og eignarhaldsfyrirtæki, eru að kaupa hluti í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og sum að gerast umsvifamiklir eignaraðilar.

Það voru fréttir af því í sumar að Samherji eignaðist 37% hlut í Skagstrendingi. Skömmu síðar bárust fréttir af því að Burðarás, eignarhaldsfélag Eimskipafélagsins, væri jafnframt að auka hlut sinn í nefndu fyrirtæki. Í fréttabréfi Eimskipafélagsins um mitt ár kom fram að Burðarás hefði á fyrri árshelmingi fjárfest fyrir hátt í 3 milljarða, einkum í sjávarútvegi. Og nú síðast bárust fréttir af því að Burðarás hefði aukið hlut sinni í Haraldi Böðvarssyni fyrir rúman milljarð. Fyrirtækið er eins og menn vita ráðandi eignaraðili í Útgerðarfélagi Akureyringa með yfir 40% hlut. Lauslega reiknað virðist Burðarás vera kominn með umtalsverðan og stundum ráðandi hlut í fyrirtækjum sem hafa yfir tæplega 60 þús. þorskígildum að ráða, eða u.þ.b. 16% af heildaraflahlutdeildum.

Jafnframt hefur komið fram að það sé stefna fyrirtækisins að fjárfesta í traustum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og vera virkur þátttakandi í þeirri þróun og uppstokkun sem fram undan sé á þessu sviði. Stefnan virðist skýr.

En sú spurning hlýtur að vakna hvort hér sé komið það módel, sú aðferð, sem ýmsir spámenn í fjármálaheiminum og einnig forustumenn í sjávarútvegi hafa verið að vísa til þegar þeir tala um stóru blokkirnar, fyrirtækin þrjú til fimm í sjávarútveginum sem munu verða til á næstu árum. Og það án tillits til þess hvort lögin um dreifða eignaraðild í sjávarútvegi eru í gildi eða ekki. Getur verið að þrátt fyrir vilja Alþingis og lagasetningu um hámarksaflahlutdeild einstakra sjávarútvegsfyrirtækja, hafi fundist annar farvegur til yfirráða á auðlindinni í miklu stærri mæli en einstökum fyrirtækjum leyfist? Telur ráðherra að hægt sé að koma í veg fyrir blokkarmyndun eins og ég rakti í dæmi mínu að væri að verða undir verndarvæng Burðaráss?

Það er jafnframt ljóst að kaup stórra fyrirtækja í sjávarútvegi í öðrum fyrirtækjum eru að leggja grunn að svipuðu mynstri. Svo virðist sem kapphlaupið um að verða ráðandi í einhverju af hinum fáu stóru sem spáð er að muni hafa yfirráð yfir megni kvótans eftir örfá ár, sé komið á fullt.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um að veiðiheimildir séu að færast á æ færri hendur. Það má til sanns vegar færa að þær séu að færast inn í æ færri fyrirtæki og við því átti að bregðast með lögunum um dreifðu eignaraðildina. En hitt hlýtur að vekja jafnmikla eftirtekt, að fyrirtækin sjálf séu síðan að komast í hendur æ færri aðila.

Ég vil því að endingu spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig honum lítist á, hvort stjórnvöld hafi í hyggju að bregðast við þessari tilhneigingu sem ég leyfi mér að fullyrða að gangi þvert á anda þeirra laga sem Alþingi setti um hámarkshlutdeild einstakra fyrirtækja.