Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:20:59 (397)

1999-10-12 15:20:59# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það sem við erum að ræða hér er spurningin um það hvort mikil samþjöppun á eignarhaldi í sjávarútvegi sé yfirleitt æskileg. Ég tel að svo sé ekki, það sé ekki hagkvæmt fyrir íslensku þjóðina að eignarhald í sjávarútvegi, eignarhald á auðlindinni eins og lögin eru núna úr garði gerð, safnist á fárra hendur. Ég held að við höfum mjög skýrar vísbendingar um að í þessa átt stefni og við því þarf að bregðast.

Með leyfi forseta langar mig að vitna í nokkrar tölur sem birtust í ritinu Kvótakerfið, kenning eða veruleiki, sem Gísli Pálsson og Agnar Helgason tóku saman. Þeir skilgreindu eignaraðild aflaheimilda og hvernig hún hefði þróast. Í raun er bein tenging á milli þess hvernig menn hafa fjárfest í sjávarútveginum og aflaheimildir hafa þróast.

Í almennum botnfiskveiðum hefur eignarhald á aflaheimildum þróast úr því að vera 25% rúm upp í það að vera 46% hjá þeim sem skilgreindir eru sem risar. Risar voru í þessum bæklingi skilgreindir sem þeir sem hafa meira en eitt prósent af aflaheimildum hjá sér. Í þessari ritgerð var einnig fjallað svokallaða dverga. Þeim hefur fækkað úr 950 niður í 547 frá árinu 1991 til og með 1997. Þetta sýnir okkur auðvitað betur en nokkuð annað að gífurlegur hraði er á samþjöppun á aflaheimildum í sjávarútvegi. Auðvitað er eðlilegt að fyrirtæki sem er í því að ávaxta sitt fé ráðstafi milljörðum sínum í fyrirtæki sem er að safna á hendur sér miklum aflaheimildum. En þetta hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf fólksins.