Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:28:04 (400)

1999-10-12 15:28:04# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mikil umræða hefur átt sér stað um eignarhald í sjávarútvegi og þar með um yfirráð yfir veiðiheimildum, sem sumir telja sameign þjóðarinnar.

Samþjöppun eigna er ekki vandinn í þessu máli. Það getur jafnvel verið eðlilegt og hagkvæmt að sameina fyrirtæki. Vandinn er allt annar. Ég hef bent á að burt séð frá réttlætissjónarmiðum, sem þó eiga sannarlega rétt á sér, þá er vandinn einkaeign á sameign þjóðarinnar. Auðlind í eigu einstaklinga eða á forræði einstaklinga getur rökfræðilega ekki verið auðlind þjóðar. Ef hagsmunir einstaklingsins rekast á hagsmuni þjóðarinnar þá velur hann að sjálfsögðu sína hagsmuni, þ.e. ef einhverju munar. Þetta höfum við séð aftur og aftur.

Við höfum byggt upp afskaplega flókna lagasetningu í kringum sjávarútveginn. Ég efast um að nokkur atvinnugrein í heiminum lúti öðrum eins reglum. Þetta höfum við gert í krampakenndri tilraun til að halda auðlindinni í eigu þjóðarinnar. Það tekst ekki, vegna þess að borgarinn á alltaf næsta leik. Menn fara fram hjá reglunum eins og sýnir sig.

Það sem menn þurfa að gera er að skoða aðrar leiðir, skoða hvernig við getum haldið auðlindinni í eigu þjóðarinnar. Ég hef t.d. lagt til að skoðað yrði hvernig væri að dreifa árlegum veiðiheimildum á alla þjóðina. Mér þætti vænt um að menn eyddu púðri í að ræða þá hugmynd, kosti hennar og galla.