Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:34:37 (403)

1999-10-12 15:34:37# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þessi umræða skýrir mjög klárlega hinar pólitísku víglínur í þessum efnum. Sá maður er bæði blindur og heyrnarlaus sem ekki sér og heyrir og skynjar þá þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi og ekki síst í sjávarútvegi. Risarnir eru að éta dvergana hvern af öðrum. Ef Sjálfstfl. lætur sér það vel líka, þá er það auðvitað í fullu samræmi við stefnu hans og verklag í gegnum árin og áratugina. Hann er þarna sjálfum sér líkur þegar völd og áhrif safnast á fárra hendur.

Við í Samfylkingunni viljum hins vegar bregðast við þessu, berjast gegn þessu og láta hina raunverulegu samkeppni og hina dreifðu eignaraðild njóta sín. Þarna eru klárlega hinar pólitísku víglínur íslenskra stjórnmála og það er gott að fá það hér fram að þeim sjálfstæðismönnum með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar finnst þetta allt í fínu standi, finnst þetta allt í góðu lagi, þ.e. sú þróun sem átt hefur sér stað og menn horfa upp á í hverju sjávarþorpinu hringinn í kringum landið dag frá degi. Það er gott til þess að vita.

Það hljómar heldur ekki trúverðugt, herra forseti, að heyra talsmann Framsfl. koma eins og háheilagan mann og hafa áhyggjur af þessari þróun, telja hana óásættanlega, eins og hann nefndi það, en sitja sem fastast í fleti með íhaldinu og styðja með verkunum þá óheillavænlegu þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi. Og það er ekki bara í sjávarútvegi, það er í fjármálaheiminum, í samgöngumálunum, í fjarskiptunum, olíudreifinginni, hvar sem borið er niður. Þetta er auðvitað það merki sem helmingaskiptastjórnir íhalds og Framsóknar hafa skilið eftir sig í gegnum tíðina og þessi stjórn ætlar að vera uppruna sínum trú í þessum efnum sem öðrum.