Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:36:45 (404)

1999-10-12 15:36:45# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hvert stefnir í íslenskum sjávarútvegi og hver er grundvallarstefna hv. núverandi stjórnarflokka? Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hélt því fram að Framsfl. hefði gengið til kosninga með breytta stefnu í þeim efnum og hér heyrum við því haldið fram, hv. þm. Jóhann Ársælsson hélt því fram að lofað hefði verið sáttum í þessum efnum. Það var bara í orði en á borði var tekið fram af forustumönnum stjórnarflokkanna sýknt og heilagt að breyting yrði ekki í grundvallaratriðum. Við þetta er haldið enn þann dag í dag.

Hæstv. sjútvrh. lagði fyrir nefndina sem skipuð var til þess að endurskoða lögin að ekki yrði um breytingar í grundvallaratriðum að tefla. Það var hennar veganesti. Hver eru grundvallaratriði þessarar stefnu? Ég kannast við hana frá 1983, breytinguna 1990 og framkvæmdina 1991 um hið frjálsa framsal. Það er grundvallarstefnan sem allt snýst um nú og hefur ráðið ferðinni þannig að nú hafa sjávarútvegsmennirnir uppi orðræður á samkomum sínum um það hvort heldur fyrirtækin í sjávarútvegi verði tvö, fimm eða sjö innan tíðar. Það er við þetta sem er að etja og menn hljóta að bregðast við.

Það er talað um hagkvæmni og hæstv. ráðherra minntist á hagkvæmni. Hagkvæmnin er hinn mesti sóðaskapur sem nokkurn tíma hefur dunið yfir eina atvinnustétt. Og mennirnir vilja ekki kannast við þetta sem er á allra viðorði. Lög og reglur í þessu efni eru þverbrotin fram og aftur um alla kæja. Það var ekki létt verk, hv. þm. Kristján Pálsson og Pétur Blöndal, (Forseti hringir.) að segja skilið við sinn gamla flokk, en mér hefur orðið á í messunni. Ég hef gleymt að lofa og þakka guði mínum fyrir að vera ekki enn í sama flokki og þessir tveir hv. þingmenn.