Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:41:42 (406)

1999-10-12 15:41:42# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þetta hefur um margt verið mjög athyglisverð umræða. En athyglina hefur þó skort hjá sumum hv. þm. því að þeir hafa talað um aðrar leiðir og það hafi einungis verið fjallað um þá sem eiga aflamark, en lögin, þ.e. 11. gr. laganna um stjórn fiskveiða tekur líka til tengdra aðila, hún tekur líka til eignarhaldsfélaga. Það sama á við um þá eins og alla, að fyrirtæki geta talist tengd ef sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða fara með meiri hluta atkvæða í stjórnum fyrirtækjanna. Um þetta er enn nákvæmar fjallað í 11. gr. og ég vísa til hennar. Þetta sagði ég í fyrri ræðu minni og ég er hræddur um að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir verði þá bara að lesa þingtíðindin ef hún hlustaði ekki á ræðuna.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson telur að eitthvað skorti á þau tæki sem Fiskistofa hefur til að fylgjast með þessu. Ég hef ekki orðið var við að Fiskistofa telji sig ekki hafa tækin til að fylgjast með því hvort aflahlutdeildin eigi að verða samanþjappaðri en lögin gera ráð fyrir. Ef hún telur svo vera, þá tel ég ekki skorta á vilja stjórnvalda til að aðstoða við að auka þær heimildir sem þeir hafa til að geta fylgst með þessu. En hingað til hafa þeir ekki kvartað og þeir telja sig vita hver staðan er í dag.

Síðan er annað sem er einkennilegt við umræðuna. Stjórnarflokkarnir eru skammaðir fyrir að svona mikil samþjöppun skuli vera og að ekkert hafi verið gert. En þeir eru þó einu flokkarnir sem hafa gert eitthvað í þessu. Það var forveri minn sem lagði fram frv. um að takmarka eignaraðildina. Það var ekki gert meðan Alþfl. var í ríkisstjórn, hv. þm. Það var gert þegar fyrrv. hv. þm. Þorsteinn Pálsson var sjútvrh. Það var gert að frumkvæði hans og enginn annar hæstv. ráðherra hefur haft slíkt frumkvæði hér á Alþingi. Þess vegna er svolítið skondið að hlusta sérstaklega á þingmenn Alþfl. sem sátu í ríkisstjórn með Sjálfstfl. kjörtímabilið þar á undan en þeir hreyfðu þessu máli ekki.