Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:59:24 (445)

1999-10-12 17:59:24# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem er hægt að gera og það er eiginlega dapurlegt að þurfa aftur og aftur að koma upp og svara þessum sömu spurningum sem hæstv. fyrrv. samgrh. Halldór Blöndal var manna duglegastur við að halda fram, að þetta væri allt saman bull og vitleysa, hvergi væri neitt til á pappír um það að tiltekin framkvæmdaröð í jarðgangagerð í landinu hefði verið ákveðin.

Hún var ákveðin í vegáætlun árið 1989, hún var ákveðin í vegáætlun árið 1991 og forsendur tillögu til langtímaáætlunar í vegamálum á sama ári byggja á þessu sama. Þetta er útgangspunktur samskipta við samtök sveitarstjórnarmanna á þessum árum og um það geta vitnað bæði fundir og fundargerðir, t.d. á fundum þáv. samgrh. með Fjórðungssambandi Vestfjarða og Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi enda vita menn það væntanlega og muna að án verulegra athugasemda voru þessar áætlanir afgreiddar á Alþingi og þá lágu þessi mál svona. Fjárveitingar ár eftir ár byggðu á þessari röð þar sem um var að ræða fjárveitingar til undirbúningsrannsókna á Austurlandi en fjárveitingar sem breyttust í framkvæmdafjárveitingar á Vestfjörðum þegar framkvæmdunum var lokið í Ólafsfjarðarmúla. Þetta liggur algerlega fyrir, herra forseti, og hægt er að fletta upp á þessu í tillögunum sjálfum, í nefndarálitunum, í framsöguræðum samgrh. o.s.frv.

Menn geta sagt að þetta sé ekki samkomulag í þeim skilningi að farið hefði verið með löggjörning og menn látnir skrifa undir hann enda er það ekki venjan í þessum efnum. En að svo miklu leyti sem venjan hefur verið að festa í sessi tiltekna framkvæmdaröð, og það hefur verið gert með þessum framkvæmdaáætlunum, vegáætlunum og langtímaáætlunum, þá var það gert og þetta var röðin. Ég held að hyggilegra væri af mönnum að koma þá og segja að þeir séu ósammála þessari röð og að þeir vilji að þessu sé breytt heldur en koma endalaust og segja að þetta hafi ekki verið svona.