Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 18:05:40 (448)

1999-10-12 18:05:40# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[18:05]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur hér fram till. til þál. um sérstakar aðgerðir í byggðamálum. Við leggjum áherslu á að þetta eru bráðaaðgerðir sem ber að grípa til nú þegar í stað til viðbótar þeim aðgerðum og áætlunum sem annars eru í gangi með skipulögðum hætti.

Mér finnst að í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um byggðamálin geri menn sér ekki grein fyrir þeim gífurlegu stærðum sem eru á ferðinni. Það er talað um og er staðreynd að um 2.000 manns flytja árlega umfram aðflutta af landsbyggðinni og til Reykjavíkursvæðisins eða hingað til þéttbýlissvæðisins. Það er líka rætt um tölur upp á 3--5 millj. á hvern íbúa sem það kostar sveitarfélag að taka við þessum íbúum umfram eðlilega uppbyggingarþjónustu sinna íbúa.

Ef við gerum ráð fyrir því að þetta séu 2.000 manns þá erum við, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á, að tala um milljarða króna. Ef við göngum út frá hærri tölunni, 5 millj. á íbúa, 5 millj. á einstakling og 2.000 manns, þá erum við að tala um tölu upp á 10 milljarða á ári bara gagnvart þessum sveitarfélögum.

Gerum síðan einnig ráð fyrir því, sem er alveg öruggt mál, að það er stór kostnaður hjá viðkomandi fjölskyldu að flytja, bæði að losna við eignir sínar, kannski á niðursettu verði og kaupa sig hér inn og koma sér fyrir. Þarna er ábyggilega líka um milljónir króna að ræða á hverja fjölskyldu. Ætli þetta eigi kannski einhvern hlut í skuldastöðu heimilanna? Og það sveitarélag sem tapar þessu fólki þarf áfram að standa skil á sinni velferðarþjónustu.

Við heyrðum einmitt í fréttum í morgun að verið var að gera grein fyrir skuldastöðu sveitarfélaganna, t.d. á Vestfjörðum, og talað var um hina miklu fólksflutninga og tekjutap sem eina röksemd fyrir skuldastöðunni. Við erum kannski að tala um 15--20 milljarða á ári sem fara í súginn eða hreinlega eyðast í þessari miklu byggðaröskun. Ef við gerumst svo djörf að reikna það aðeins til tíu ára, þá eru öll fjárlög íslenska ríkisins að fara þar. Gera menn sér í alvöru grein fyrir þeim fjárhagslegu stærðum sem enginn er að óska eftir?

Þær aðgerðir sem helst eru gerðar í byggðamálunum er að vinna skýrslur, halda ráðstefnur og fundi um ástand og aðgerðir í byggðamálum og upplýsingum er safnað. Herra forseti. Maður hefur á tilfinningunni að það sé orðin atvinnugrein að safna skýrslum og upplýsingum og halda ráðstefnur um aðgerðir í byggðamálum. Þetta er orðin atvinnugrein fjölda fólks, fjölda sérfræðinga, heilla stofnana og jafnvel í stórum hluta ráðuneyta en ekkert er síðan gert. Það eina sem við höfum kannski upp úr allri þessari skýrslusöfnun og ráðstefnum og ég tala nú ekki um fjölmiðlaumsögnum, því að þessar skýrslur fara jú í fjölmiðlaumfjöllun, er að þá þykir sjálfsagt að fara út á land með húfu bretta niður fyrir eyru og ullarkragann upp að eyrum, í stígvélum og illa til hafðir og koma þangað gjarnan í slæmu veðri þegar fólk er að norpa í gjóstrinum. Það er dreifbýlið sem verið er að sýna. Síðan komum við hingað á Austurvöll og erum í jakka og með bindi og allt er voðalega fínt og sætt.

Það eina sem slíkar skýrslur og umfjöllun virðist hafa í för með sér er að undirstrika og kalla fram neikvæða ímynd dreifbýlisfólksins sjálfs, fólksins á landsbyggðinni. Þetta er sú umfjöllun sem það fær og þetta kallar líka fram neikvæða ímynd hjá fólkinu í þéttbýlinu gagnvart landsbyggðinni. Ég segi fyrir mína hönd og það landsbyggðarfólk sem ég þekki til að viljum ekki fleiri skýrslur, við viljum ekki meiri gagnasöfnun. Um þessi mál er allt vitað. Við viljum fá aðgerðir þegar í stað sem ná til þessa fólks, fólksins sem er að taka ákvörðun um hvort það flytur burt eða ekki.

Við viljum einnig fá átak til að snúa þessari ímynd við. Við teljum að margt sé gott á landsbyggðinni og vitum að gott er að búa þar. Það er gott fyrir fjölskyldufólk og börn. Það er samfélag sem við viljum hafa og erum stolt af og viljum fá að búa í og teljum auðlegð. Við viljum að þetta sé dregið fram í mun ríkari mæli en gert er í þessari umfjöllun og það verði síðan með í að taka á til að styrkja byggðirnar og verði undirtónn í þeim aðgerðum sem gripið er til.

Ég harma að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér því að hann fer með þessi mál og ég treysti hans miklu réttsýni í að taka á þeim og það væri verðugt áður en hann missir af þeim undir annað ráðuneyti, að hann geri nú hið raunverulega stóra átak sem búið er að tala um í öll þessi ár og við bíðum eftir.

Við leggjum áherslu á að það beri að draga fram þær góðu hliðar sem búsetu á landsbyggðinni fylgir. Það ber að leggja áherslu á þá samfélagslegu auðlegð sem dreifð búseta er. Sú samfélagslega auðlegð verður ekki endurheimt ef hún hrynur en sú auðlegð skapar grunn að því samfélagi sem við búum í á öllu landinu, og það er fjarri því að fólk á suðvesturhorninu hafi einhvern áhuga á slíkri byggðaröskun. Ég ætla að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. október og er skrifuð af Einari Sigurbjörnssyni, sem er bæjarfulltrúi Framsfl. í Garðabæ. Hann segir í upphafi, með leyfi forseta:

,,Byggðaröskun er líka vandi höfuðborgarsvæðis. Við á Stór-Reykjavíkursvæðinu verðum að gera okkur grein fyrir því að kostnaður við byggðaröskunina leggst ekki síður á íbúa höfuðborgarsvæðisins en aðra landsmenn.``

Hann leggur áherslu á að þetta muni koma fram í aukinni skattheimtu, bæði í sveitarfélögunum og hjá ríkinu.

Virðulegi forseti. Það eru mörg önnur atriði sem ég hefði viljað koma inn á og fá að heyra álit hæstv. forsrh. á, þar sem málin heyra undir hann, en ég vil ljúka máli mínu með því að segja: Við viljum aðgerðir, aðgerðir sem ná til einstaklinganna, til fólksins sjálfs á landsbyggðinni. Við viljum að það ágæti sem fólgið er í dreifðri búsetu sé dregið fram og sé stutt. Það kostar stundum að halda því sem gott er.