Endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:43:13 (456)

1999-10-13 13:43:13# 125. lþ. 8.1 fundur 27. mál: #A endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. 10. þm. Reykv. að huga þurfi að fleiri þáttum en ég nefndi eða nefndir eru í stjórnarsáttmálanum. Ég tek undir með honum líka að auðvitað á ekki að láta það standa svo að um oftryggingar sé að ræða. Ef við komum í veg fyrir það, þá höfum við væntanlega meira ráðrúm til að bæta þeim upp sem við teljum vantryggða.

Ég vil vekja athygli á því, vegna þess að menn hafa áhyggjur af því hvort þetta verk muni ganga fram, að verkið er sett af stað strax í upphafi kjörtímabils sem sýnir vilja okkur til að nýta tímann vel. Ég tek einnig undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. um að skynsamlegt sé að stjórnarandstaðan hafi aðkomu að málinu þegar það fer raunverulega gang. Þá held ég, svo að ég svari þeirri spurningu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom með, að það gæti verið ágætur aðdragandi þess að þá lægi þetta verk fyrir sem þessi leiðarlýsinganefnd, ef ég má kalla hana svo, á að skila og ,,hagsmunaaðilar`` og síðan stjórnarandstæðingar gætu komið að málinu á því stigi málsins.