Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:47:22 (574)

1999-10-14 14:47:22# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér þóttu þetta góð orð hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og fagna því sérstaklega að aðrir en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs skulu taka þátt í henni eins og verið hefur fram til þessa almennt í þessu máli. Að sjálfsögðu söknum við hæstv. ráðherra en erum heiðruð engu að síðu með nærveru hv. þm. Tómasar Inga Olrichs, formanns utanrmn., og verður fróðlegt að heyra viðbrögð hans við umræðunni og þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Það er þannig, herra forseti, allt of oft, að mál sem koma upp eru borin fram á vegum stjórnarandstöðunnar, fá eina umræðu í þinginu, þeim er vísað til þingnefnda þar sem þau eru látin deyja drottni sínum. Mér finnst það mjög skaðlegt þegar slíkt gerist án þess að umræða fari fram þar sem fulltrúar ólíkra stjórnmálafylkinga viðra viðhorf sín til málsins. Mér finnst þau þá ekki ná þeirri lýðræðislegu umfjöllun sem þau eiga skilið á Alþingi. Ég kom því hingað fyrst og fremst upp, herra forseti, til að vekja athygli á þessu og á nærveru formanns hv. utanrmn., og bíð spenntur eftir að heyra sjónarmið hans í þessu máli.