Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:58:09 (578)

1999-10-14 14:58:09# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Eflaust má lengi ræða það hvernig þessi þáltill. er á litinn og það er vissulega rétt að lagt er til að gerð verði lögfræðileg úttekt á álitamálum sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í Júgóslavíu og þjóðréttarlegum afleiðingum þeirra. Þeir sem telja sig hafa lögin og sannleikann með sér óttast væntanlega ekki slíka úttekt.

Herra forseti. Mig langar til í ljósi þessara ummæla að lesa fyrstu tvo liði þáltill., þriðji liðurinn er lögfræðilega úttektin:

Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem fari í samráði við stjórnvöld með eftirfarandi hlutverk:

að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í hvers kyns starfi sem miðar að því að bregðast við umhverfisáhrifum af átökunum í Júgóslavíu á þessu ári,

að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfi á Balkanskaga.``

Mér finnst ástæðulaust að reyna að gera lítið úr því sem fyrir okkur vakir í þessu efni. Við viljum einfaldlega láta gott af okkur leiða í því uppbyggingarstarfi sem er fram undan og verður að vera fram undan á Balkanskaga.