Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:42:01 (587)

1999-10-14 15:42:01# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég held að nú hafi aftur gerst hið sama og sl. vor að hér sé mál borið upp með nokkurri oftúlkun og fögnuður málshefjanda, Sighvats Björgvinssonar, byggður á misskilningi og raunar líka á vanþekkingu á stefnuskrá Samfylkingarinnar. Þar var einnig tekið fram að ekkert skyldi gerast í ESB-málunum á kjörtímabilinu af hálfu Samfylkingarinnar.

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar ESB beinist hins vegar til ákveðins ríkjahóps í Evrópu. Það eru þau ríki þar sem efnahagur hefur verið svo bágborinn að þau hafa hingað til ekki komið til greina sem umsækjendur að ESB. Á þessu er með yfirlýsingunni breyting. Þær þjóðir sem hingað til hafa ekki talist eiga möguleika á að ræða um inngöngu við ESB eygja nú þann möguleika. Að sjálfsögðu er þetta gert til að róa þessar þjóðir því það hefur mikið verið gagnrýnt meðal þessara fátækustu þjóða Evrópu, ég nefni sérstaklega Búlgaríu og Rúmeníu, að fá ekki að komast inn í viðræður við ESB. En þessar þjóðir binda vonir við það að komast í skjól ESB og komast yfir efnahagsvanda sinn með því samstarfi. Að menn skuli skilja þessa yfirlýsingu til þessara fátækustu þjóða Evrópu sem sérstakt tilboð til Íslendinga er afskaplega sérkennilegt.

Okkur stendur til boða að ganga í ESB. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að við getum gengið inn í ESB. Við höfum hins vegar ekki kosið að gera það. Það fjaðrafok sem hér er gert út af þessu er reyndar þannig að ég held að rétt sé að minna á að norska þingið hefur ekki talið að hér væri um að ræða stórmál. Það hefur ekki verið gripið til þess úrræðis að fara í utandagskrárumræðu um þetta mál í norska þinginu, svo mér sé kunnugt. Þetta er því hliðstæð ekki-frétt við það þegar nokkrir fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni fóru á fund (Forseti hringir.) embættismanna í ESB og komu heim með þau tíðindi, ef svo skyldi kalla, að það væri ekkert í stofnskrá Evrópusambandsins sem kæmi í veg fyrir það (Forseti hringir.) að Íslendingar gætu fengið viðurkenningu fyrir sérstöðu í sjávarútvegsmálum.