Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:44:34 (588)

1999-10-14 15:44:34# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég var áreiðanlega ekki eini Íslendingurinn sem fannst við hafa verið gripin í bólinu í gær þegar það fréttist að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði ákveðið að hefja aðilarviðræður við sex ríki til viðbótar, að nú ætti að sameina Evrópu. Nú á sem sagt að herða á samrunaferlinu en við erum ekki farin að taka málið á dagskrá. Staða Íslands í gjörbreyttum heimi hefur ekki verið tekin á dagskrá utanríkismálaumræðunnar sem hjakkar enn í gamla kaldastríðsfarinu. Ekki er þó endilega við utanrrh. að sakast. Hann hefur sýnt virðingarverða viðleitni til að taka málið nýjum tökum. Nei, það er hæstv. forsrh. sem trúr línu Margrétar Thatcher og annarra íhaldsmanna hefur haldið umræðunni í gamla farinu. Alvarleg umræða um stöðu okkar í Evrópu hentar honum ekki og þar á hann góða samleið með Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.

En af hverju ekki opinbera umræðu um kosti þess og galla að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu? Hversu lengi duga viðbárur á þá lund að hagsmunir okkar í sjávarútvegi séu svo miklir? Menn greinir hreinlega á um niðurstöðu þess máls ef af aðild yrði. Er ekki rétt að fara yfir málin, kynna þau þjóðinni, kalla fram umræðu og treysta lýðræðið? Það er alveg ljóst að löndin á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa öll og munu áreiðanlega flest gaumgæfa stöðu sína vandlega við þessar breyttu aðstæður. Það verðum við líka að gera og taka síðan upplýsta og meðvitaða ákvörðun um framtíð okkar í stað þess að hrekjast til niðurstöðu vegna ónógs undirbúnings eða fordóma. Málið er klárlega komið á dagskrá.