Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:33:04 (602)

1999-10-14 16:33:04# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu sem ég tel mjög þarfa. Ég vonast til að hún fái góða þinglega meðferð og verði samþykkt sem ályktun Alþingis. Ég tel nefnilega að þarna sé vandamál sem er mjög brýnt að tekið verði á.

Ég hef sjálf unnið áratugum saman sem kennari og á fyrstu árunum sem ég kenndi var ekki svo mikið um hjálp fyrir þá sem áttu í erfiðleikum. Hvernig sem maður reyndi og lagði sig fram þá fór það alltaf svo með einhverja nemendur sem maður fylgdi í gegnum skólann að þeir voru útskrifaðir með mjög lítilli lestrarkunnáttu sem ég hef grun um að hafi kannski orðið að engu vegna þess að kunnáttan var ekki nóg til að þeir gætu beitt henni.

Ég held að núna þegar ýmsar framfarir hafa orðið í námsefnisgerð, eins og hv. fyrri ræðumaður lýsti, til að kenna þeim sem seinlæsir eru og eins það að miklar framfarir hafa orðið í menntun sérkennara á þessu sviði, þá sé mjög brýnt að leita þetta fólk uppi og gera átak til að hjálpa því til að ná þeirri færni sem gerir það færara í lífsbaráttunni.

Ég þakka þessa tillögu og lýsi yfir stuðningi mínum við hana.