Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:34:54 (603)

1999-10-14 16:34:54# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir mjög eindregnum stuðningi við þessa þáltill. sem ég tel vera mjög mikilvæga. Í greinargerð með tillögunni koma fram uggvekjandi upplýsingar frá Danmörku. Reyndar er vísað til rannsókna hér heima og kemur fram að þær eru af mjög skornum skammti en leiddar eru líkur að því að svipað ástand kunni að vera hér og í Danmörku. Ef svo er þá væri um að ræða 20 þúsund ólæsa íslendinga.

Ég lít svo á að þetta sé mannréttindamál. Eins og kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, 1. flm. þáltill., þá er læsi forsenda þess að geta tekið þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Í annan stað snýst þetta um líðan einstaklingsins.

Ég minnist þess að í upphafi áttunda áratugarins þegar ég stundaði kennslu í eitt ár gekk á ýmsu í þeim skólabekkjum sem ég kenndi. En ég minnist eins nemanda sem var mjög ódæll og erfiður viðskiptis. Hann vildi ekki fara að mínum óskum og fyrirmælum og brást hinn versti við ef hann var beðinn um eitthvað. Ég áttaði mig ekki á því hverju þetta sætti, en síðan kom í ljós að drengurinn sem var 15--16 ára gamall var ólæs. Hann var að bregaðst þarna við af vanmætti sínum. Á þessu var ráðin bót og honum var kennt að lesa og hegðan hans breyttist öll til hins betra í einu vetfangi.

Ég tek eftir því í greinargerð með þáltill. að litið er á hana sem fyrsta skref. Þarna er um að ræða könnun á ástandinu, en síðan segir undir lokin að nauðsynlegt sé að bregðast við þessari könnun í kjölfarið og vísað er til þess að við þurfum að læra af reynslu annarra þjóða og þess sem hefur verið vel gert hér á landi.

Ég vek athygli á því að við þessa umræðu sem fjallar um mjög mikilvægt mál hefur aðeins einn stjórnarsinni tekið til máls og verið viðstaddur, hv. þm. Sturla Þorsteinsson. Ég lýsi undrun minni á því að við þessa umræðu skuli ekki vera fulltrúar stjórnarmeirihlutans úr menntmn. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. menntmrh. væri viðstaddur þessa umræðu, formaður menntmn. og helst allir sem eiga sæti í þeirri nefnd.