Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:38:21 (604)

1999-10-14 16:38:21# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka góða framsögu 1. flm. þáltill., hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, og ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem lýsir vonbrigðum með mætingu þingmanna við umræðuna. Sérstaklega lýsi ég yfir vonbrigðum mínum með að hæstv. menntmrh. skuli ekki taka þátt í þessum umræðum hér.

Málið sem hér er til umfjöllunar er afskaplega alvarlegt. Ég vek athygli á því að í fyrstu málsgrein greinargerðar tillögunnar er talað um dulið ólæsi fullorðinna vegna þess að fullorðnir sem hafa komist í gegnum skólagöngu sína án þess að læra að lesa, án þess að vera greindir með lesblindu eða eitthvað annað sem orsakar það að þeim hefur ekki tekist að læra að lesa, eru með þennan dulda galla, þessa fötlun sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefnir svo. Það gerir það að verkum að fólk sem á við þetta vandamál að stríða upplifir sig sem annars flokks þjóðfélagsþegna. Vandamál af þessu tagi elur á stéttaskiptingu í okkar samfélagi. Þess vegna er málið sem hér er til umræðu mannréttindamál.

Það er sjálfsagt að íslenskt samfélag komi sér upp greiningaraðferðum fyrir fullorðna sem eiga við þessa fötlun að glíma. Greiningartækifæri fyrir fullroðna hafi ekki verið til staðar í samfélagi okkar. Sem betur fer eiga börn í það hús að venda í dag að þau finnast sem eiga við þetta vandamál að glíma, en fullorðnir finnast ekki. Þeir gefa sig ekki sjálfviljugir fram. Þess vegna styð ég að þessi tillaga fái vandaða umfjöllun í hv. menntmn. og ég kem til með að leggja mitt lóð á vogarskálina til þess að svo megi verða.