Minning Auðar Auðuns

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 13:30:55 (651)

1999-10-19 13:30:55# 125. lþ. 12.1 fundur 76#B minning Auðar Auðuns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[13:30]

Forseti (Halldór Blöndal):

Auður Auðuns, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, andaðist sl. nótt, aðfararnótt 19. október, 88 ára að aldri.

Auður Auðuns var fædd á Ísafirði 18. febrúar 1911. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Auðunn Jónsson alþingismaður og Margrét Guðrún Jónsdóttir húsmóðir. Hún lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1929 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1935. Hún stundaði málflutning á Ísafirði 1935--1936. Árið 1936 fluttist hún til Reykjavíkur og gerðist húsmóðir. Hún var lögfræðingur mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur 1940--1960, borgarstjóri í Reykjavík ásamt Geir Hallgrímssyni 1959--1960 og dóms- og kirkjumálaráðherra 1970--1971.

Auður Auðuns var bæjar- og síðar borgarfulltrúi í Reykjavík 1946--1970, forseti bæjarstjórnar og síðar borgarstjórnar 1954--1959 og 1960--1970 og átti sæti í bæjarráði og síðar borgarráði 1952--1970. Hún átti á þeim tímabilum sæti í fræðsluráði, framfærslunefnd og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Hún var skipuð árið 1945 í nefnd til að vera stjórnarskrárnefnd til ráðgjafar og aðstoðar, 1946 í endurskoðunarnefnd framfærslulaga og laga um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, 1954 í endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga og 1961 í sifjalaganefnd og átti þar sæti til 1978. Í útvarpsráði var hún 1975--1978. Hún var formaður sendinefndar Íslands á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkóborg 1975. Við alþingiskosningar var hún oft í kjöri í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn, tók varamannssæti á Alþingi 1947 og 1948 og var þingmaður Reykvíkinga 1959--1974, sat á 17 þingum alls.

Eins og ráða má af þeim starfsferli, sem hér hefur verið rakinn, lét Auður Auðuns að sér kveða í landsmálum, enda var fast leitað eftir þátttöku hennar á ýmsum sviðum. Af störfum hennar í nefndum má ráða hvaða málum hún sinnti öðrum fremur. Málefni kvenna, barna, fátækra og sjúkra voru þar í fremstu röð. Í margra ára störfum með öðrum mætum lögfræðingum í sifjalaganefnd var unnið að undirbúningi stórmerkra lagabálka.

Með störfum sínum ávann Auður Auðuns sér traust og það var hlutskipti hennar að vera fyrsta kona sem var borgarstjóri höfuðborgarinnar og fyrsta kona sem tók sæti í ríkisstjórn Íslands. Hún hlaut á ungum aldri góða menntun og kynntist í störfum sínum högum almennings og kjörum, vann að málum stefnuföst og háttvís og brást í engu því trausti sem til hennar var borið.

Ég bið hv. alþingismenn að minnast Auðar Auðuns með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]