Grunnskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 14:04:30 (654)

1999-10-19 14:04:30# 125. lþ. 12.6 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, SÞ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Sturla D. Þorsteinsson:

Herra forseti. Í frv. er lagt til að við lok grunnskólans gefist nemendum kostur á að þreyta samræmd próf í allt að sex námsgreinum. Í öðru lagi er sveitarfélögum samkvæmt frv. heimilt að fresta einsetningu grunnskólans til 1. september árið 2004.

Hvað varðar 1. gr. þá lít ég svo á að hún sé til mikilla bóta fyrir allt skólastarf við lok grunnskólans. Eins og fram kemur í aðalnámskrá er gerð sú krafa á nemandann að hann taki aukna ábyrgð á námi sínu. Það er því mjög mikilvægt að nemandinn taki ákvörðun í samræmi við þá sem að honum standa í byrjun 9. bekkjar, hvert skuli stefna miðað við mismunandi inntökuskilyrði í framhaldsskóla.

Einnig er mjög jákvætt við frv. að nemandi í 9. bekk getur lokið samræmdu prófi einu ári fyrr en ella hefði verið. Í þeim skóla sem ég þekki til, Garðaskóla í Garðabæ, höfum við boðið þeim nemendum í 9. bekk sem standa vel að vígi að spreyta sig á námsefni 10. bekkjar í samræmdum greinum. Í 10. bekk taka svo þessir nemendur fjölbrautaáfanga í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Einnig tel ég jákvætt við frv. að það er ekki lengur skylda allra að gangast undir samræmd próf við lok 10. bekkjar. Nú er til staðar möguleiki á undanþágu, en hún er háð nokkuð ströngum skilyrðum. Í þessu sambandi er mikilvægt að leggja á það ríka áherslu að slík ákvörðun, að gangast ekki undir samræmd próf, skal alfarið vera í höndum nemandans og hans forráðamanna. Með slíkri ákvörðun er nemandinn ekki að brjóta allar brýr að baki sér því framhaldsskólinn býður þessum nemendum samkvæmt aðalnámskrá að hefja nám í sérdeild eða á almennri braut sem býður t.d. upp á tveggja ára starfsnám.

Hvað varðar 2. gr. frv. þá held ég að flestir skilji óskir sveitarstjórnarmanna um frestun á einsetningu grunnskólans til 1. september 2004. En það ber að virða þann mikla metnað sem sveitarfélögin hafa sýnt hvað varðar einsetningu grunnskólans því þessum metnaði fylgja mikil fjárútlát.