Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:01:26 (664)

1999-10-19 15:01:26# 125. lþ. 12.7 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. vil ég taka fram að þessir frestir snerta ekkert málefni fatlaðra. Við vinnum að því að skipuleggja fjögurra ára nám fyrir fatlaða á framhaldsskólastigi og það þarf að undirbúa það vel og átta sig á hvernig að því verður staðið. Það á ekkert skylt við þessa fresti. Þeir frestir eru af öðrum toga vegna framkvæmda á öðrum ákvæðum framhaldsskólalaganna. Þetta er bæði spurning um fé og einnig inntak í námi sem menn eru að fjalla um varðandi fatlaða nemendur og þeirri vinnu verður haldið áfram og verður ekki frestað þótt þessir frestir yrðu veittir hér.

Við höfum líka lagt á það áherslu í þeim umræðum að framhaldsnám er mismunandi langt. Það er alls ekki um það að ræða að allir nemendur innriti sig í framhaldsskóla með það í huga að vera þar í fjögur ár. Og ef markmiðið er á hinn bóginn einnig að stytta námið almennt niður í þrjú ár þá hlýtur nám fyrir fatlaða nemendur að taka mið af því. Aðalatriðið er að það nám sé vel skilgreint eins og annað nám í framhaldsskólanum og að nemendur fái þá þjónustu í skólanum sem þeim ber miðað við þroska sinn.