Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:11:31 (696)

1999-10-19 17:11:31# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég sakna þess að ráðherra byggðamála, hæstv. forsrh., skuli ekki vera viðstaddur því að í framkvæmd heyra þessi mál undir hæstv. forsrh. og ráðuneyti hans.

Varðandi það mál sem hér er rætt vísa ég til þess sem ég sagði fyrr í þessari umræðu um þær stærðir sem hér er um að ræða, þann mikla kostnað sem þessir búferlaflutningar hafa í för með sér, þær fjárfestingar sem verður að ráðast í, það að halda heilu landshlutunum í landnemaástandi, fólk geti ekki komið sér með eðlilegu móti fyrir, að vera stöðugt að taka á móti mun fleira fólki en eðlilegt er og taka þeim afleiðingum sem í rauninni fylgir slíku róti sem landnemabyggðir hafa í för með sér og jafnframt það mikla tjón og þann kostnað sem eftir liggur á landsbyggðinni. Þetta rakti ég fyrr í umræðunni.

Það sem við leggjum til í þáltill. okkar er að nú þegar verði gripið til bráðaaðgerða, þ.e. aðgerða til viðbótar við þær almennu aðgerðir og almennu vinnu sem í gangi er, þó að þar megi vissulega líka bæta, taka betur á og skilgreina. Við leggjum áherslu á það í tillögum okkar að þær aðgerðir sem gripið er til nái til einstaklinganna og þeirra einstöku fyrirtækja úti á landsbyggðinni sem eru að vega og meta stöðu sína til framtíðar og taka ákvarðanir sínar út frá því. Við leggjum áherslu á að þær aðgerðir sem hér er gripið til kafni ekki eða lendi í milliliðum eða í formi nefnda á nefndir ofan sem dragi úr skilvirkninni í þeim aðgerðum sem við viljum að gripið verði til.

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja áherslu á nokkur atriði í tillögum okkar. Við leggjum áherslu á vegamálin. Í þáltill. sem samþykkt var hér á þingi sl. vetur um aðgerðir í byggðamálum er líka lögð þung áhersla á að varið verði sérstöku fé til vegamála og vegagerðar úti um land. Ég minni á ástand og stöðu vega, tengi- og safnvega um sveitir landsins. Þetta eru malarvegir sem búa við takmarkað viðhald og litla endurnýjun. Þessa vegi verður fólk að fara um daglega, aka börnum í skóla og sækja vinnu. Það er lífsspursmál fyrir byggðir í sveitum landsins að slíkir vegir verði í góðu lagi og þeir verði samkeppnisfærir við aðrar samgönguæðar.

Við þekkjum það að fólk sem er vant að aka á malbikuðum vegum þorir ekki að keyra út á malarvegina. Og meira að segja hjólbarðarnir sem við kaupum undir bílana okkar eru gerðir til þess að aka fyrst og fremst á bundnu slitlagi og þeir verða afar skreiðir á malarvegum. Ef við viljum í raun gera átak í byggðamálum, þá förum við og gerum stórátak í sambandi við þessa vegi.

Má ég líka minnast á annað mál sem er þriggja fasa rafmagn á sveitabæi víða um sveitir landsins. Þetta hefur oft verið rætt hér á Alþingi og það hefur oft verið rætt í þjóðfélaginu hversu brýn nauðsyn þetta er. Oft er rætt um þennan mikla aukakostnað sem lagður er á dreifbýlið, á sveitirnar, og þá mismunun sem á sér stað í gegnum rafmagnið. Ég þekki það á mínu gamla búi í Bjarnarhöfn að þar er atvinnurekstur sem byggir á því að geta verið með stóra kæla og frysta. Það skiptir hundruðum þúsunda kr. á ári sem það er dýrara fyrir einstaklinga þar að reka sinn atvinnuveg vegna þess að þeir verða að búa við einfasa rafmagn. Þetta er kerfisbundin mismunun sem á sér stað úti um sveitir landsins. Það á ekki að vera spurning, heldur forgangsatriði að leysa, en ekki bara ræða og velta sér upp úr. Framlagið á fjárlögunum er skert, þetta litla framlag sem er til þess að efla dreifikerfi rafmagns um sveitir landsins, það er þessi litla vísbending sem fjárlögin eru og skilaboðin sem þau senda út um sveitir landsins. Þetta er mál sem á að leysa og afgreiða og hætta að þurfa að ræða um.

Búsetan sjálf er auðlegð og það að búa úti um dreifðar byggðir landsins, halda þeim í byggð, vernda og nýta og rækta náttúruauðlindir og samfélög, það er auðlind í sjálfu sér sem okkur ber líka að rækta og varðveita. Við getum þurft að leggja eitthvað á okkur að eiga og halda þeim verðmætum sem okkur þykir vænst um. Þess vegna ber að skoða beinar búsetutengdar aðgerðir, beinar búsetuengdar leiðréttingar, framlög til einstakra byggða og bæja til að sýna að Alþingi vilji í rauninni að landið sé byggt og vilji leggja eitthvað á sig til þess og vilji taka þátt í þeim kostnaði sem því fylgir að gera það mögulegt.

Við leggjum til að það verði skoðað í gegnum skattkerfið að leiðrétta þá mismunun sem á sér stað í innheimtu ríkissjóðs á sköttum landsmanna. Ef við lítum á virðisaukaskattinn þá leggst hann með auknum þunga í fjarlægð frá innflutningshöfnum eða dreifiaðilum hér á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis með vörum sem fluttar eru út eða hingað til neyslu þannig að skatturinn þar sem ríkið tekur til sín er beinlínis íþyngjandi. Við höfum nefnt menntun, við hefðum getað nefnt sjúkrahjálp. Við vitum það líka að víða úti um sveitir landsins mun aldrei verða hægt að hafa sama aðgengi að ýmissi opinberri þjónustu og hún mun alltaf verða dýrari. Þess vegna er það bara sanngirnismál að komið sé til móts við þetta til jöfnunar, til leiðréttingar og það ber að skoða skattkerfið til þess.

Ég vil líka nefna menntamálin og menntakerfið og það var til umræðu fyrr á fundi hv. Alþingis, um framhaldsmenntunina og grunnskólamenntunina. Það ber að skoða allar leiðir til þess að færa framhaldsmenntunina, færa menntun ungs fólks á aldrinum 16 ára til tvítugs aftur heim í heimabyggðirnar. Má ég benda á t.d. að á norðanverðu Snæfellsnesi, bara Ólafsvík, Grundarfirði og Hellissandi eru hátt á þriðja hundrað krakkar á aldrinum 16 ára til tvítugs sem verður að senda að heiman þar sem enginn kostur er á framhaldsmenntun þar. Við verðum að aðlaga menntakerfi okkar að því samfélagi sem við viljum búa í.

Síðast en ekki síst, herra forseti, legg ég áherslu á það að gera sérstakt átak í því að kynntir verði þeir kostir sem felast í því að búa í samfélögum úti á landi.