Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:07:28 (704)

1999-10-19 18:07:28# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég var spurður um hvers væri að vænta varðandi þær breytingar sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála á flutningi forræðis byggðamála frá forsrn. til iðn.- og viðskrh. Þetta mál er í vinnslu og er komið á lokastig af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vænti þess að frv. um þær breytingar verði lagt fram í þinginu strax að lokinni kjördæmaviku.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi réttilega, að sums staðar væri flótti frá byggðum þó að atvinnulíf virtist vera í blóma og jafnvel meiri eftirspurn eftir atvinnu en nokkru sinni fyrr þá getur atvinnan samt haft þarna áhrif vegna þess að það skortir á fjölbreytileika í atvinnulífinu. Þó að tiltekin störf standi til boða þá er ekki víst að það eitt nægi. Fjölbreytileikann í atvinnulífinu skortir og ég vænti þess að sú skýrsla sem við ræddum áðan gæti verið til þess fallin að auka þann fjölbreytileika. En ég tek undir með honum, eins og reyndar er lögð áhersla á í þáltill., að aðrir þættir koma mjög við sögu. Það er nú viðurkennt og sérstaklega undirstrikað eftir þá ágætu skýrslu sem prófessor Stefán Ólafsson vann fyrir Byggðastofnun á sínum tíma, að aðrir þættir skipta mjög miklu máli í mati fólks á því hvar það vill festa sér búsetu. Menntamálin eru þar auðvitað mikilvægur þáttur.