Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:42:08 (716)

1999-10-19 18:42:08# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð því miður að segja að ég botna ekki mikið í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. Mér finnst hann tala í austur og vestur. Fyrst talar hann um að ríkið komi að málum, þá talar hann um stalínískar aðferðir við uppbyggingu og klykkir út með því að ríkið eigi ekki að koma að því að byggja upp stóra verksmiðju á Austurlandi.

Það er nú svo að hér eru í gangi viðræður við erlent fyrirtæki um byggingu verksmiðju. Fyrir nokkrum árum, það eru rúmlega fjögur ár síðan, var síðast byggð verksmiðja hér á höfuðborgarsvæðinu. Þá sagði ekki nokkur hv. þm. nokkurn skapaðan hlut utan einn maður sem var á móti því hér á hv. Alþingi, þegar verksmiðjan var stækkuð í Straumsvík. Þá var atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru ekki miklar umræður hér í Alþingi um það mál. Þá var ekki talað um að staldra við og engar umræður um að þetta væri stalínískar aðferðir eða erlend og mengandi stóriðja. Ég man ekki til þess. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur ekki verið við þegar sú umræða fór fram um það mál.

Ég mótmæli því að lokum að núverandi ríkisstjórn og sú ríkisstjórn sem sat á síðasta kjörtímabili hafi enga tilburði haft til að eiga við byggðavandann. Í fyrsta skipti í mörg ár var á síðasta kjörtímabili eitthvað gert í að jafna húshitunarkostnað. Þá var í fyrsta skipti í mörg ár tekið eitthvert tilhlaup að því að jafna námskostnað. Það var á síðasta kjörtímabili og þannig mætti lengi telja, fjarkennslu og ótal verkefni önnur.