Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:58:18 (724)

1999-10-19 18:58:18# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér í umræðu um þáltill. sem hér er verið að ræða en verð í upphafi máls míns að spyrja hvort hæstv. forsrh., ráðherra byggðamála, sé farinn úr húsinu.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. þurfti að yfirgefa húsið. Hann er upptekinn annars staðar.)

Það er náttúrlega mjög slæmt að þessi umræða skuli eiga sér stað þegar hæstv. forsrh. getur ekki verið allan tímann vegna þess að ég er með nokkrar spurningar sem ég hefði viljað leggja fyrir hann. En það er kannski táknrænt þar sem við ræðum hér byggðamálin. Mjög fáir eru hér inni. Ég held ég sjái ekki nema einn þingmann Sjálfstfl. og mér sýnist þingmenn Framsfl. vera aðallega farnir að taka að sér það hlutverk að verja byggðastefnu undanfarinna ára þó að þeir eigi náttúrlega sinn þátt henni. En það er dálítið skrýtið að þeir skuli taka að sér vörnina fyrir hæstv. forsrh.

Það er kannski dálítið táknrænn vettvangur fyrir umræðu um byggðamál að verið er að ræða málið núna þegar klukkan er að verða sjö og farið að dimma töluvert úti í Reykjavík. Ég verð að segja að ég sakna þess að forsrh. er ekki í húsinu. Ég hefði viljað eiga orðaskipti við hann um þau nýju mál sem hafa verið að koma, þ.e. skýrslu um nýsköpun við gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni, þar sem hann sagði hérna áðan að þetta gæti skaffað 500--1.000 störf, og það er gott. En það bjargar að sjálfsögðu ekki öllu. Það verða ekki allir sem vinna við að pikka á tölvur og þess háttar. En ég verð þó að segja alveg eins og er að þó að við sjáum hvað hægri hönd hæstv. forsrh. gerir vitum ekkert hvað vinstri hönd hans gerir.

[19:00]

Um þróun í fjarskiptum vil ég taka eitt smádæmi sem er að gerast einmitt núna. Þróun í fjarskiptum er að gera það að verkum að verið er að leggja niður allar loftskeytastöðvar hringinn í kringum landið, m.a. í byggðarlagi mínu þar sem sjö manns störfuðu og þeir voru sennilega fyrirvinnur u.þ.b. 30 íbúa. Það er álíka og ef 120--130 manna fyrirtæki væri lagt niður í Reykjavík. Nú eru menn að koma með skýrslu um það að færa aftur eitthvað út á land þegar ekki eru nema fjórir, fimm, sex mánuðir síðan menn voru að taka þetta frá landsbyggðinni og suður. Það virtist vera að þessi þróun væri bara í aðra áttina. Ákaflega er þetta nú skringileg byggðaumræða og kannski táknræn fyrir þá uppgjöf og úrræðaleysi sem hefur ríkt í þessum málum undanfarin ár.

Ég hefði viljað spyrja forsrh. enn einu sinni út í efndir á þeim loforðum sem hann gaf um jöfnun húshitunar og jöfnun námskostnaðar. Ég nota tækifærið eins og ég sagði áðan, vegna þess að það er hlutverk framsóknarmanna að verja þessar aðgerðir, og spyrja þá hv. þm. Jón Kristjánsson, formann fjárln., talsmann ríkisstjórnar hvað fjárln. varðar, út í þessar aðgerðir. Verður staðið við þau loforð sem forsrh. gaf? Munum við sjá við 2. umr. koma 250 milljónir til viðbótar við jöfnun húshitunarkostnaðar og munum við sjá 70 milljónir til viðbótar, 1/3 af því sem þarf, til jöfnunar námskostnaði? Hvar sér því stað í fjárlagafrv. að eitthvað eigi að gera með tillögur byggðanefndar forsrh. varðandi endurgreiðslu lána LÍN hjá því fólki sem fer að vinna úti á landi? Ég sé þess hvergi stað.

Full ástæða er til að ræða í góðan tíma við forsrh. um þungaskattinn, íþyngjandi samþykktir frá síðasta þingi sem stórhækka vöruverð, um vísitölu neysluverðs, hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem hækkar afborganir lána fólksins úti á landi. Að maður tali nú ekki um fasteignaskattinn og hver verði loforð ríkisstjórnarinnar um breytingar á þeim skaðræðiskatti sem þar er.

Oft hefur viljað brenna við, og kom fram í utandagskrárumræðunni um daginn, að það fer mjög í taugarnar í stjórnarþingmönnum þegar þessi mál eru rædd og okkur er helst legið á hálsi að vera að nefna þetta og við erum skammaðir fyrir það. Það er svona álíka og að skamma slökkviliðið þegar það kemur til að slökkva elda í húsum. En það vantar sennilega að tína miklu meira fram af því jákvæða við að búa úti á landi.

Það er ekki líka svo að við komum þessu jákvæða alltaf á framfæri. Ég skal segja ykkur eitt smádæmi. Ríkisútvarpið-sjónvarp hefur ekki efni á því miðað við fjárveitingu að leyfa fréttariturum sínum að fara um hinar dreifðu byggðir landsins og taka þar upp viðtöl og sýna frá því jákvæða sem er að gerast á landsbyggðinni. Fréttaritararnir þurfa að hringja suður og fá leyfi hjá Ríkisútvarpinu-sjónvarpi, fréttastjóranum til þess að fara einhverja smáleið. Þetta er oft fólk sem er í annarri vinnu. Ekkert er gert til þess að dreifa þeim jákvæðu fréttum sem nóg er af. En ef verður snjóflóð einhvers staðar, þá er jafnvel keypt flugvél eða þyrla til að flytja fréttamenn á staðinn og þá koma þeir héðan af höfuðborgarsvæðinu. Þetta er svona eitt dæmi um þetta.

Byggðavandinn er mikill. Í þeirri tillögu til þál. sem hér liggur frammi frá þingflokki vinstri grænna er margt sem má taka undir. En það er margt sem ég hefði viljað sjá öðruvísi gert og mér finnst kannski fullmikil fljótaskrift á tillögunni en ég er viss um að hana mætti bæta og tek það fram að hér er margt mjög gott. Ég hef ekki tíma til að ræða það í gegn en ég stoppa aðeins við 12. lið um það að gera rannsóknir eða athuganir á mögulegum breytingum í skattamálum.

Ég hef verið talsmaður þess að menn eigi að nota skattkerfið til að fara sértækar aðgerðir í byggðamálum, í bráðaaðgerðum. Ég tel að við förum sértækar aðgerðir í skattamálum á margan hátt. Hv. þingmenn voru að fara séraðgerðir í skattamálum á síðasta þingi eða þar síðasta, t.d. til að laða að erlenda kvikmyndaframleiðendur. Það voru sértækar aðgerðir vegna þess að þeir fá hluta af virðisaukaskattinum endurgreiddan. Af hverju má ekki nota þessa leið úti á landsbyggðinni?

Í Noregi er þungaskattur misjafn milli svæða. Hann lækkar nánast eftir því sem lengra fer frá höfuðborgarsvæðinu. Hér er það ekki svo. Þungaskatturinn íþyngir íbúum landsbyggðarinnar. Þungaskatturinn vex, virðisaukinn vex, ríkið fær meira af þessu og vöruverð hækkar. Þetta er hluti af þessari hringavitleysu. Það er á svo mjög mörgum sviðum þar sem aðgerðir ríkisstjórna og Alþingis eru að gera búsetuna erfiðari úti á landi og þess vegna verður að jafna það í gegnum skattkerfið. Við vitum að Norðmenn fara þá leið. Íbúar nyrstu héraða Noregs borga lægri skattprósentu en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Atvinnurekendagjöldum í Noregi er skipt niður í fimm flokka þar sem einn flokkurinn er þannig að ekkert er greitt af atvinnurekstrargjöldum til ríkisins vegna þess að litið er á það sem stuðningsaðgerðir fyrir lítil fyrirtæki í hinum dreifðu byggðum Noregs. Af hverju getum við ekki farið þessa leið?

Herra forseti. Tími minn er að renna út en ég verð að segja alveg eins og er að ég sakna þess mjög að hæstv. forsrh. skuli ekki geta verið í salnum. Ég þykist vita, og það var kallað hér fram í áðan, að hann er að fara í sjónvarpsupptöku, umræðu um byggðamál, og það er gott. En ég hefði þá talið ástæðu til að umræðu á þessum fundi hefði verið frestað fyrr þegar forsrh. þurfti að fara úr húsinu, til þess að gefa okkur tækifæri á að ræða við forsrh. áfram um þessi mál og spyrja hann spurninga en svo er ekki. Ég mundi vilja óska þess að byggðamálin væru rædd að degi til í framtíðinni á hinu háa Alþingi.

(Forseti (GuðjG): Þessari umræðu hefur þegar verið frestað einu sinni milli funda til að hæstv. ráðherra gæti verið viðstaddur og hann var hér fyrr við umræðuna og gat því miður ekki verið lengur.)