Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:13:42 (728)

1999-10-19 19:13:42# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það hefur náttúrlega engan tilgang að ræða þetta meira. Ég vil þó þakka hv. þm., formanni fjárln., Jóni Kristjánssyni, fyrir svör hans. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki þegar þessi nefnd var skipuð og tillögurnar lágu svo snemma fyrir af hverju þetta kemur ekki fram í upphaflegum fjárlögum, af hverju þetta á að koma inn á seinni hluta. En ég mun halda áfram úr þessum ræðustól að minna stjórnarþingmenn á þetta loforð og mun þá gera það þegar síðari umr. fer fram ef það verður ekki ljóst fyrir þann tíma.

Að mínu mati er þetta algjör prófsteinn á hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að skipta um gír í byggðamálum eða ekki. Þessar tillögur, sem eru nú ekki mjög stórar og ekki mjög kostnaðarfrekar, eru samt sem áður lykilatriði. Mér finnst þær vera grundvallaratriði sem fyrsta skref í byggðaáætlun nýrrar ríkisstjórnar. Þess vegna segi ég aðeins það að ef á að svíkja þetta loforð eða koma ekki með 1/3 í jöfnum áföngum þá eru það svik vegna þess að þessum tillögum var veifað af stjórnarflokkunum í kosningunum sem tillögum þeirra í byggðamálum. Það er nokkuð ljóst.

[19:15]

Ég segi því enn og aftur: Með því verður fylgst hvort t.d. framsóknarmenn munu gefa þetta eftir til þess að ná Íslandsmetinu, að skila fjárlagafrv. með einhverjum ímynduðum 15 milljarða afgangi. Eða hvort einhverju örlitlu verður snakað út, einhverjum peningum, einhverju kjöti á beinin í þau byggðamál sem við erum að ræða um og allir eru sammála um að eru mikilvægt mál.

Ég fagna því líka að hv. þm. skuli vera mér sammála um að þetta hafi ekki átt að vera enn ein gulrótarnefndin. Ég var í þeirri nefnd og ég hef sagt það að þegar ég fór út af síðasta fundinum þá held ég að ég hafi verið kominn með átta eða tíu kílóa skýrslu frá nefndarstarfinu --- en landsbyggðarfólk lifir ekki á skýrslum einum saman.