Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:48:33 (741)

1999-10-20 13:48:33# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er tveggja spurninga:

,,1. Eru uppi hugmyndir í ráðuneytinu um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag?

2. Hafa einhverjar aðrar hugmyndir komið fram um breytingar á rekstrarformi þess og þá hverjar?``

Ég kýs að svara þessum spurningum saman því að svarið við þeirri fyrri útilokar hina síðari.

Útvarpsstjóri ritaði mér bréf, dagsett 20. maí 1998. Þar skýrir hann frá því að í júní 1996 hafi framkvæmdastjórar Ríkisútvarpsins og þáverandi útvarpsstjóri samþykkt að skipa starfshóp til að móta framtíðarsýn stofnunarinnar til ársins 2005. Skilaði hópurinn skýrslu 5. desember 1996 og var hún lögð fram í útvarpsráði 13. janúar 1997.

Í þessari skýrslu er lagt til að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag, m.a. með þessum rökum og vitna ég orðrétt í skýrsluna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Líklegt er að Ríkisútvarpið þurfi að auka þjónustu til að verja hlut sinn. Frá sjónarmiði Ríkisútvarpsins verða ný lög að tryggja að það geti brugðist við nýjum ófyrirséðum aðstæðum með skjótum hætti. Það er skoðun hópsins að það verði best gert með því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi í eigu ríkisins. Þannig verði rekstrarlegur sveigjanleiki best tryggður.``

Í þessu bréfi útvarpsstjóra frá 20. maí 1998 fer hann þess á leit að þessi niðurstaða starfshópsins komi til umfjöllunar hjá stjórnvöldum við endurskoðun útvarpslaga. Segir hann að tillagan um að stofna hlutafélag sé fram komin til að styrkja Ríkisútvarpið í vaxandi samkeppni.

Á síðasta þingi lagði ég fram frv. til laga um almennan hluta útvarpslaga ef þannig má að orði komast. Vilji minn stendur til þess að endurflytja það á þessu þingi, en þar er ekki tekið á málum Ríkisútvarpsins sérstaklega.

Á vettvangi menntmrn. hefur verið unnið að því að útfæra hugmyndina um Ríkisútvarpið sem hlutafélag í eigu ríkisins. Hafa verið samin drög að frv. og þau kynnt forráðamönnum Ríkisútvarpsins. Málið er enn á vinnslustigi innan ráðuneytisins og ræðst af pólitísku mati hvort það verður lagt fyrir Alþingi eða ekki.

Ég hef hvað eftir annað lýst þeirri skoðun minni að um breytingar á Ríkisútvarpinu verði að ríkja víðtæk pólitísk sátt. Það stafar af eðli stofnunarinnar. Ég hef einnig sagt oftar en einu sinni að kröfur einkarekstrar verði að fá að njóta sín meira í starfsemi Ríkisútvarpsins. Raunar er auðvelt að færa fyrir því rök að andstæðingar breytinga á Ríkisútvarpinu séu að ganga erinda keppinauta þess.