Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:56:01 (746)

1999-10-20 13:56:01# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan. Hins vegar mátti af þeim ráða að allt frumkvæði að fyrirhugaðri hlutafélagavæðingu væri komið frá útvarpinu sjálfu. Hæstv. ráðherra flutti mál sitt þannig að í kjölfar þess hafi ráðuneytið sett af stað einhvers konar vinnu.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekkert að tjá mig um hvað ég tel besta rekstrarformið á útvarpinu. Hins vegar verður útvarpið ekki endurskilgreint með því einu að hengja háeff fyrir aftan stofnunina. Það er alveg af og frá. Ég held að það væri miklu eðlilegra að hæstv. ráðherra reyndi að skýra og skilgreina nákvæmlega hvert hann telji markmiðið með rekstri stofnunarinnar fremur en að koma hér upp, að mínu viti, með örlítið ódýrum hætti. Hann reynir að koma því inn hjá þjóðinni að markmið hans að gera þessa stofnun að hlutafélagi sé að frumkvæði útvarpsstjóra og hann hafi ekkert með það að gera.