Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:22:53 (758)

1999-10-20 14:22:53# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það eru, eins og hér hefur komið fram, margir bæir sem ekki geta notið útsendinga sjónvarps og það eru reyndar stór landsvæði til viðbótar sem ná slíkum sendingum mjög illa, bæði útsendingum sjónvarps og útvarps og geta ekki notað farsíma sem er öryggistæki en er dauður á stórum landsvæðum. Þetta er náttúrlega ekki viðunandi í lok 20. aldar og kannski ekki gott innlegg í byggðaumræðuna sem fer nú hátt þessa dagana.

Á síðasta þingi svaraði hæstv. menntmrh. fyrirspurn minni um möguleika þess að senda sjónvarp og útvarp út um gervihnetti til fiskimiðanna. Þar kom fram að kostnaður við það hefur snarlækkað á undanförnum árum og er ekki nema 1/10 af því sem hann var fyrir fimm árum, mig minnir að hæstv. ráðherra hafi nefnt töluna 60 millj. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð nýtt sé af því máli að frétta og hvort ekki megi vænta möguleika þess að senda útvarp og sjónvarp út um gervihnetti, þannig að fólk vítt og breitt um landið og sjómennirnir á fiskimiðunum geti notið þessara útsendinga til jafns við aðra landsmenn.