Gerð vega og vegslóða í óbyggðum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:46:08 (768)

1999-10-20 14:46:08# 125. lþ. 13.7 fundur 53. mál: #A gerð vega og vegslóða í óbyggðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Samtal mitt og hæstv. umhvrh. heldur áfram. Hér er borin fram fyrirspurn um lagingu vega og vegslóða í óbyggðum.

Tilefni fyrirspurnar minnar er kannski það að ferðir mínar um hálendið í sumar voru talsverðar. Ég kom víða þar sem ég sá slóða, ekki einungis hjólför utan vega heldur beinlínis slóða, jafnvel uppbyggða vegi með ræsum og tilheyrandi þar sem ég taldi ekki að ættu að vera slóðar eða að nokkur merki væru sjáanleg um slóða á kortum.

Þegar farið var að spyrjast fyrir um þessa slóða kom í ljós að víða voru þeir lagðir, annaðhvort af Landsvirkjun eða að tilhlutan Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á hálendinu norðan Vatnajökuls. Það má segja að sá vegslóði sem skaut mér hvað mestum skelk í bringu væri vegslóði sem liggur utan í Fremri-Kárahnjúk. Þar hefur verið búið til sár eða lína afskaplega sýnileg og sterk þvert inn í fjallið sem lýkur í raun og veru í miðjum hnjúknum. Að mínu mati er þetta mikið lýti á annars fallegu fjalli.

Mig fýsir að heyra frá hæstv. umhvrh. hvort slóðar af þessu tagi séu ekki matsskyldir samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og hvernig greinum þeirra laga hafi verið framfylgt hvað varðar lagningu vega og vegslóða í óbyggðum, sem þá hafa ekki verið inni á sérstakri vegáætlun. Einnig fýsir mig að vita hvernig þessu hefur verið háttað með vegi sem hafa verið lagðir vegna rannsókna á virkjunarsvæðunum norðan Vatnajökuls eftir 1. maí 1994.