Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:02:44 (774)

1999-10-20 15:02:44# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþb., hefur hafið umræður um það hvort kjarnorkuvopn hafi verið geymd á Íslandi á liðinni tíð. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alþb. eða forustumenn þess reyna að notfæra sér ýmiss konar fréttir og hefja upphlaup og umræður af iðulega litlu tilefni. Hv. þm. sagði sjálf að fram að þessu hefðu slíkar fréttir verið lausafréttir. Ég vil orða það svo. En þegar slíkar fréttir bárust á sínum tíma voru þær ekki meðhöndlaðar sem lausafréttir heldur með nákvæmlega sama hættinum og þessi lausafrétt núna.

Utanríkisráðherrar hafa hver af öðrum svarað slíkum spurningum, Ólafur Jóhannesson á sínum tíma, Geir Hallgrímsson, Jón Baldvin Hannibalsson og síðast 1995 Halldór Ásgrímsson, allt hæstv. utanrrh. og öll svör þeirra hafa verið á sömu lund að engar haldbærar upplýsingar bendi í þá átt sem hér er verið að þyrla upp. Þvert á móti liggja fyrir fullyrðingar íslenskra ráðamanna og bandarískra að ekki hafi verið geymd kjarnorkuvopn á Íslandi, en nú er sem sagt gert ráð fyrir því að í tíð vinstri stjórnarinnar 1956--1958, og Alþb. reyndar líka, hafi hér verið kjarnorkuvopn.

Heimildin er listi sem birtur er og var gerður opinber af bandarískum stjórnvöldum samkvæmt bandarískum upplýsingalögum. Þessi listi er ekki tæmandi því að heiti ýmissa landa sem voru í frumriti listans voru strikuð út. Höfundar greinarinnar í tímaritinu Bulletin of the Atomic Scientists, þar á meðal vinur vor William Arkins, sem alltaf hefur komið við sögu í öllum þessum upphlaupum fram að þessu --- það er gaman að sjá svona gamla drauga birtast á listanum með fullri virðingu fyrir viðkomandi --- geta sér til að Ísland sé á listanum. Í greininni sem birt er búa þeir sér til sinn eigin lista þar sem þeir setja Ísland innan sviga í eina eyðuna í listanum því þar hljóti Ísland samkvæmt stafrófsröð að vera í frumritinu. Þetta eru öll vísindin. Og á þessum óvísindalegu og reyndar fáránlegu vinnubrögðum byggja fjölmiðlar sem fjölluðu um málið, umfjöllun sína.

Landvarnaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýst því yfir við íslensk stjórnvöld að ályktun höfundanna í tímaritsgreininni sé röng og að Ísland sé ekki á listanum í frumriti hans. Ég vil lesa þetta aftur. Landvarnaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýst því yfir við íslensk stjórnvöld að ályktun höfunda tímaritsgreinarinnar sé röng og að Ísland sé ekki á listanum í frumriti hans. Lyktir þessa máls eru þannig í samræmi við niðurstöður fyrri kannana íslenskra stjórnvalda í Bandaríkjunum á sannleiksgildi ítrekaðra fullyrðinga á undanförnum 20 árum um að hér á landi hafi verið geymd kjarnorkuvopn. Slíkar fullyrðingar hafa eins og nú ætíð reynst ósannar.

Af þeim ástæðum taldi ég ekki mikla ástæðu til utandagskrárumræðu en ég vona að þetta skýri málið.