Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:35:25 (859)

1999-10-21 14:35:25# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að yfirlýsingar hæstv. iðn.- og viðskrh. hér áðan hafi verið nokkuð merkilegar. Hann telur að talsverður hluti af því frumvarpi sem hér liggur fyrir eigi fullt erindi inn í það frumvarp sem hann sjálfur ætlaði að leggja fram. Það er ekki mjög algengt, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherrar taki með jafnjákvæðum hætti í frumvörp sem koma frá stjórnarandstöðunni og er kannski til eftirbreytni.

Ég vil segja það hæstv. viðskrh. til hróss að hann hefur tekið niðurstöðum samkeppnisyfirvalda betur en sá flokkur sem hann er með í stjórn. Framganga þess flokks og ráðherra hans er einstök í ýmsum tilvikum. Fræg eru orðin landssímamálin 30 sem varla hefur fengist niðurstaða í nema hæstv. samgrh., annaðhvort núverandi eða fyrrverandi, hafa tekið til máls og gagnrýnt stofnunina án þess að nokkur rök fylgi. Maður minnist einnig sérstæðra yfirlýsinga hæstv. forsrh. á sínum tíma í svokölluðu flugfélagsmáli, þar sem hann taldi að niðurstaða stofnunarinnar væri sennilega ekki í samræmi við hag neytenda, án þess að færa nokkur frekari rök fyrir því máli.

Saga Sjálfstæðisflokksins í samkeppnismálum er reyndar slík að sem betur fer hefur þó samstarfsflokkurinn í þessu tiltekna máli staðið í ístaðinu. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir það hvernig hann hefur þó haldið á samkeppnismálum á þessu kjörtímabili.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill minna hv. þingmenn á að beina andsvörum að ræðu síðasta ræðumanns.)