Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:39:03 (876)

1999-10-21 15:39:03# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta hjá hv. þm. þau ummæli hans að ég hafi á einhverju stigi sagt að ég vildi ekki selja Landssímann. Ég lýsti því fyrst yfir í októbermánuði 1991 að ég vildi einkavæða Landssímann. Það er mjög auðvelt fyrir mig að draga fram ummæli á hverju einasta ári síðan þar sem ég hef ítrekað þá skoðun mína og margsinnis tekið fram að ég telji það skaða bæði samkeppnisumhverfið hér á landi og raunar líka hagsmuni ríkissjóðs að slá því máli á frest. Þessu hef ég margsinnis lýst yfir og þarf ekki að orðlengja það frekar.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort það var einhver tilviljun en þegar hv. þm. sagði að hann hefði ævinlega verið vinur Landssímans þá flaug í gegnum höfuðið á mér að Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélagsins, segist vera meiri náttúruverndarsinni en aðrir menn.