Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:22:02 (890)

1999-10-21 16:22:02# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég hreyfi hér máli sem var mjög mikið til umræðu fyrir nokkrum árum. Það er fjöldi manns í samfélaginu sem hefur áhuga á þessum málum þó að það sé ekki að sjá hér í þingsal að þingmenn velti mikið fyrir sér því sem ég ætla að fara að ræða. Það er sem sagt frv. til laga um afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga.

Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskrh. fyrir að vera hér viðstaddur og leggja e.t.v. einhver orð í belg um þetta mál. Frumvarpsgreinin er svohljóðandi:

,,Frá og með 1. janúar árið 2000 er öll verðtrygging fjárskuldbindinga með vísitölum óheimil, óháð stofntíma kröfunnar.``

Ég sagði áðan, herra forseti, að þetta mál hefði verið mjög til umræðu. Meðal annars talaði núv. forseti Alþingis einhvern tíma á fjórða tíma um þessi mál og taldi mikla ástæðu til að afnema verðtryggingar fjárskuldbindinga og hafa aðra viðmiðun en er í dag og ég gæti hugsað mér ámóta viðmiðun svo sem eins og gengiskörfu sem uppbyggð væri af jeni, evru og dollar.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2000 verði óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar, hverju nafni sem nefnast, t.d. innlán og útlán í bankakerfinu og viðskiptabréf hvers konar. Frumvarpið tekur jafnt til samninga sem gerðir eru eftir 1. júlí 1999 og samninga sem gerðir hafa verið fyrir þann tíma. Verði frumvarpið að lögum munu verðtryggingarákvæði fjárskuldbindinga falla úr gildi. Af þeim sökum verða samningsaðilar að endurskoða slík ákvæði sem í gildi eru við gildistöku laganna.``

Það má e.t.v. segja, herra forseti, að réttara hefði verið að leggja fram þáltill. og óska eftir því að sett væri á laggirnar nefnd til þess að endurskoða verðtryggingarákvæði fjárskuldbindinga. En til að vekja athygli á málinu og koma því í umræðu í hv. efh.- og viðskn. þá set ég málið svona fram. Ég tel nefnilega að verðtryggingar fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu sé mjög umhugsunarvert form og ég hef verið að velta því fyrir mér hvort lánskjaravísitala sé ekki meiri verðbólguhvati en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn og hann er háður mestum sveiflum í hagkerfi. Það má nefna það að vinnulaun eru reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er tekin af þeim með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðarlánum svo eitthvað sé nefnt.

Kaupgjaldsvísitalan er ekki notuð, var raunar afnumin með lögum og ég held að sterk rök þurfi fyrir að stætt sé á því að halda lánskjaravísitölunni svona eins og hún er. Og það má einnig, herra forseti, velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að ef útfararkostnaður hækkar þá gerist það að verðbætur á lánum aðstandenda hins látna hækka. Er þetta eðlilegt? Er það eðlilegt þegar um útfararkostnað er að ræða að hann hafi áhrif á að erfingjar eða aðstandendur hins látna búi við hærri lán eða hærri skuldbindingar við það að útfararkostnaðurinn hækkar?

Ég flyt þetta frv. af því að ég hef sannfæringu fyrir því að nauðsynlegt sé að endurskoða grunn fyrir verðtryggingum fjárskuldbindinga og þarf ekki annað en vitna til skjala sem ég hef meðferðis og ætla að vitna til, með leyfi forseta. Þau eru af sama toga og hjá flestum skuldurum þessa lands. Ég er t.d. með skuldabréf sem hljóðar upp á upphafsskuld að upphæð 1.188 þús. kr. sem er með samtals 60 gjalddögum. Þetta skuldabréf hefur ávallt verið í skilum og það er komið nú þegar með 8% hækkun vísitölu og vísitalan fer ört hækkandi. Ég tel að skoða eigi svona mál.

Ég er með annað skuldabréf upp á 1.120 þús. kr. sem er frá því í október á sl. ári. 15. mars þegar var búið að greiða af láninu í fimm skipti hafði lánsupphæðin vaxið um 10.500 kr. Það er sem sagt algengt að vísitölustig er að hækka á sex mánaða fresti um 5,7--7 stig. Það eru engir smáaurar sem þarna eru í spilinu.

Ég má til með að nefna eitt dæmi til viðbótar, lán sem tekið er 1989 í ágúst. Það ár var lánskjaravísitalan upp á 2.557 stig en vísitalan 7. maí 1999 var 3.680 stig. Þá má lesa og vitna til þess á skjalinu hinu sama að 800 þús. kr. lánið er orðið að 1.151 þús. kr. Ég held að ástæða sé til að skoða slík mál.

Að síðustu, herra forseti, vil ég vitna til láns sem er tekið 17. febrúar 1999 upp á 3.720 þús. Búið er að greiða af því 51 þús. kr. á hverjum einasta mánuði síðan lánið var tekið og það er að sjálfsögðu í skilum. Búið er að greiða sem sagt 450 þús. kr. af láninu en lánsupphæðin frá því 17. febrúar er núna 3.703 þús. Þó er búið að greiða af því 450 þús. kr. Það er þess vegna sem ég hef orð á þessu. Þar sem um er að ræða einstaklinga sem hafa lækkað í tekjum eiga þeir mjög örðugt með að standa undir þeim skuldbindingum sem verðbindingin veldur. Ég held að ástæða sé til að rannsaka þessi mál, ekki síst einmitt vegna þeirra sem hafa lækkað í launum á meðan lánskjaravísitalan veður áfram og ég vil þá sérstaklega vitna til þeirra sem hafa farið út af almennum vinnumarkaði eða fengið minni launahækkanir en meðaltalshækkanir. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort í raun geti það ekki verið þannig að lánskjaravísitalan eins og hún er framkvæmd sé varasöm og hættulegur verðbólguvaldur.

Ég mælist til þess að að lokinni umræðu verði frv. vísað til hv. efh.- og viðskn.