Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:47:44 (894)

1999-10-21 16:47:44# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við höfum rætt þetta mál áður og munum væntanlega ræða það aftur. Síðast þegar við ræddum það fór ég í gegnum það eins og hæstv. viðskrh. gerði hér áðan, að vextir af óverðtryggðum lánum hafa frá því að vextir voru gefnir frjálsir ætíð verið hærri en vextir af verðtryggðum lánum þó að maður taki verðtrygginguna með. Verðtryggð lán hafa því verið skuldurunum hagstæðari en óverðtryggð lán. Ég tala nú ekki um hagsmuni sparifjáreigenda og þeirra sem leggja féð til, að vera öruggir um að fá sína peninga verðtryggða til baka. Enda er það svo að víða erlendis eru menn í auknum mæli að taka upp verðtryggingu, sérstaklega á langtímalánum, þar sem það minnkar áhættu beggja aðila, bæði skuldarans og þess sem leggur peningana fram.

Herra forseti. Hv. þm. gat um að gengistrygging gæti verið ákveðin lausn á þessum vanda. En þá verður líka að taka með í dæmið að í erlendum myntum er líka verðbólga. Það er meiri eða minni verðbólga í öllum löndum heims. Þess vegna rýrnar gjaldeyrir líka að meðaltali þannig að vextir af slíku yrðu að vera hærri en vextir af verðtryggðum lánum auk þess sem vísitalan hefur tilhneigingu til þess að yfirmeta verðbólguna eins og ég hef nefnt áður, þ.e. neytandinn flýr yfir í ódýrari vörur þegar verð á einni vöru hækkar, en vísitalan mælir ekki þennan flótta.

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um samspil verðbólgu og verðtryggingar. Ég er sannfærður um það að þegar verðtryggingin var tekin upp og varð almenn, þá höfðu skuldarar sem eru mjög valdamiklir í þessu landi, ekki lengur hag af því að verðbólgan hélt áfram. Ég hugsa því að hluti af þeirri verðbólgu sem var hér áður fyrr, þeirri geysiverðbólgu sem var hérna, hafi verið vegna þess að mjög margir aðilar í þjóðfélaginu höfðu hreinlega hag af því að verðbólgan héldi áfram. En eftir að verðtryggingin var tekin upp þá höfðu menn ekki lengur hag af því. Ég hugsa að forsenda þess að verðbólgan hjaðnaði hafi verið mikil útbreiðsla verðtryggingar. Hins vegar eru til kenningar um það að verðtrygging geti verið mjög hættuleg í verðbólguþjóðfélagi því að hún getur myndað spíral, þ.e. það getur komið verðbólga í verðtrygginguna. Og það er mjög hættulegt.

En hér á landi er verðtryggingin nánast forsenda fyrir langtímalánum vegna þess að sparifjáreigandinn er svo illa brenndur af verðbólgunni að hann leggur ekki peningana til hliðar til langs tíma, bindur þá í langan tíma nema hafa verðtryggingu.

Hér hefur verið rætt um skuldir heimilanna og því kennt um kannski að lánin séu verðtryggð. Það er allt annar handleggur. Ég hef margoft lýst því yfir að skuldir heimilanna stafa að mínu mati að miklu leyti af því að fólk er hvatt til að skulda. Með vaxtabótunum í skattkerfinu er hreinlega sagt við fólk: Taktu meiri lán. Ríkið borgar vextina fyrir þig. Þannig er þetta líka í reynd á vissu tekju- og eignabili að ríkið borgar vextina. Það skiptir ekki máli hvað menn kaupa dýrt. Greiðslubyrðin er nánast sú sama. Það er því mikill hvati í skattkerfinu til þess að auka skuldir.

Herra forseti. Hér er talað um það að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga frá og með 1. janúar árið 2000 bara á einu bretti og það meira að segja óháð stofnunartíma kröfunnar. Það sem menn mega ekki gleyma í þessu sambandi er að þetta mundi aldeilis rústa lífeyrissjóðakerfið. Verðtrygging lífeyris var tekin upp og það var hægt að taka hana upp vegna þess að það var búið að verðtryggja allar eignir lífeyrissjóðanna meira og minna. Það er einmitt einkenni á lífeyrissjóðunum að þeir geta borgað verðtryggðan lífeyri, sem er þá verðtryggður miðað við neysluvísitölu, vegna þess að skuldbindingarnar eru verðtryggðar. Þeir gætu það ekki annars. Það yrði að setja mjög mikil öryggisálög á lífeyrissjóðina sem leiddi til þess að þeir þyrftu að skerða lífeyri ef ekki væri um þessa verðtryggingu að ræða.

Það er svo aftur önnur saga sem hefur lítið komið inn í umræðuna að allur lífeyrir landsmanna hækkar eins og verðlag, eins og neysluvísitalan, en ekki eins og laun. Þar af leiðandi er hagur allra þeirra sem njóta lífeyris úr lífeyrissjóðunum ekki eins góður og batnar ekki eins vel og hagur þeirra sem taka laun. En þetta var vitað þegar lífeyrissjóðirnir tóku upp verðtrygginguna. Á þetta atriði var bent, að laun mundu hækka meira en vísitalan og þess vegna er ávöxtunarkrafa í útreikningum á skuldbindingum lífeyrissjóðanna 3,5% í staðinn fyrir 2% sem það þyrfti ella að vera. En ef við reiknuðum með því að skuldbindingar lífeyrissjóðanna, og þar með lífeyririnn, hækkuðu eins og laun, þá yrði að skerða lífeyrinn allverulega þegar í stað. Sú ákvörðun að lífeyrir hækkar minna en verðlag var tekin meðvituð á sínum tíma til þess að geta borgað þó þennan góða lífeyri sem lífeyrissjóðirnir eru að borga.

Að öðru leyti vil ég ekki fara nánar út í þetta. Þetta er frv. sem ég held að eigi ekki rétt á sér. Verðbólgan er að lækka. Það er ekki lengur eins mikil þörf á því að afnema verðtrygginguna. Svo er það spurningin: Af hverju vill fólk taka verðtryggt lán og af hverju vill fólk leggja inn verðtryggt? Af hverju má fólk ekki bara gera það sem það vill ef það telur það skynsamlegt og þetta truflar ekki nokkurn mann?