Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 16:07:33 (928)

1999-11-01 16:07:33# 125. lþ. 16.5 fundur 59. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðsla) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á hrós skilið fyrir að hreyfa máli sem er sannarlega brýnt og varðar eitt af grundvallaratriðum í því samfélagi sem við lifum í og köllum lýðræðissamfélag. Hér er lagt til, herra forseti, að Alþingi samþykki að mögulegt verði að skjóta málum til þjóðaratkvæðagreiðslu ef fimmtungur atkvæðisbærra manna fer skriflega fram á það. Um er að ræða hugmynd sem er ekki ný af nálinni og hugmynd sem á miklu greiðari aðgang í nágrannalöndum okkar, hugmynd sem á líka vaxandi fylgi að fagna í ýmsum löndum sem við höfum stundum borið okkur saman við og köllum líka vestræn lýðræðissamfélög. Ástæðan er sú að tillögur af þessu tagi eru ekki bara í takt við breyttan tíðaranda, heldur líka í takt við breytta tækni sem gerir okkur mögulegt að efna til slíks þjóðfundar í kjörkössum og miklu betur en áður. Grundvallarstefið í nútímalýðræði er vitaskuld að öllum þegnum, sem eru komnir til vits og ára, beri rétturinn til þess að hafa sömu áhrif á stjórnun samfélagsins sem þeir búa í. Við erum að vísu mismunandi, sum okkar eru fátæk og önnur okkar eru rík, sum eru greind en önnur ekki og hagsmunir okkar allra eru ólíkir. Eigi að síður er það óbifanlegur grundvöllur lýðræðissamfélagsins að allir eigi að hafa jafnan rétt og möguleika til þess að ákveða hvernig samfélaginu eigi að vera stjórnað.

Herra forseti. Í þessu ljósi er vissulega undarlegt að í flestum samfélögum, þar á meðal okkar hér á Íslandi, heyrist rödd hins almenna kjósanda nánast aldrei beint milli kosninga, þá á ég fyrst og fremst við þegar við erum að kjósa þjóðhöfðingja eða erum að kjósa okkur Alþingi. Það er einungis á þessum tímapunktum í tilveru samfélagsins sem rödd mannsins á götunni, grundvallareiningarinnar í lýðræðinu, fær að heyrast. Lýðræðið sem við búum við er nefnilega talsvert langt frá því að vera raunverulegt lýðræði eins og það birtist í hinni upphaflegu merkingu þess orðs sem að fól í sér að lýðurinn, fólkið, ætti að ráða. Lýðræði okkar er fulltrúalýðræði þar sem við kjósum okkur fulltrúa til að taka ákvarðanir í umboði okkar þannig að afl hins almenna þegns, kjósandans, kemur raunar aldrei beint fram. Sameiginlegt afl kjósandans, borgaranna, eins og það birtist opinberlega í fjölmiðlum eða með öðrum hætti nægir að vísu stundum til að hafa áhrif á það sem stjórnvöld vilja gera. Útbreidd andúð og óánægja nægir stundum til þess að draga úr, milda eða jafnvel fella algerlega niður tiltekna þætti í fari stjórnvalda. En það er fágætt og við höfum ekki þennan beina rétt til þess að segja hvað það er sem við viljum. Fulltrúalýðræðið, sem við búum við, felur í sér að í stað þess að við tökum öll beinan þátt í ákvörðunum og tökum þær sameiginlega, þá látum við valdið í hendur fulltrúa sem eru kjörnir sérstaklega til þess að taka ákvarðanir fyrir okkur. Þeir fulltrúar fá til þess fullt og óskorað vald og það er meira að segja tekið fram að fortakslaust mega þeir ekki fara eftir vilja kjósenda heldur algerlega eftir eigin sannfæringu.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að hægt sé að segja með fullum rökum að hér sé um mjög stórt valdaframsal þegnanna að ræða til mjög fárra fulltrúa. Eina leiðin til þess að láta í ljósi skoðun þeirra er þegar við kjósum okkur Alþingi og sem síðan velur sér ríkisstjórn. Auðvitað er hægt að fella ríkisstjórnir í kosningum en hér á Íslandi, má segja að rödd kjósandans og hinn beini íhlutunarréttur hans í gegnum kosningar sé mun minni en annars staðar vegna þess að kerfi okkar er þannig að við búum við samsteypustjórnir. Þar sem samsteypustjórnir eru þá er miklu erfiðara fyrir kjósendur, jafnvel þó þeir flykki sér saman um tiltekin mál, að ná þeim fram í gegnum kosningar. Það er miklu auðveldara fyrir stjórnmálaflokka sem búa jafnan við samsteypustjórnir að skjóta sér undan því að taka upp mál, jafnvel þó að þau hafi borið mjög hátt í kosningum.

Ég rifja það upp, herra forseti, að þetta er auðvitað andstætt þeirri fornu hefð sem ríkti á Íslandi þar sem þjóðin kom saman til opins fundar á Alþingi þar sem menn réðu ráðum sínum, ræddu mál og reifuðu og tóku síðan ákvarðanir. Þjóðin öll tók þær ákvarðanir. Auðvitað voru mörg rök og orsakir sem hnigu til þess að þessu fyrirkomulagi var breytt. Þjóðþing af þessu tagi þóttu þung og erfið í framkvæmd. Ég held því líka fram, herra forseti, að ýmsar ástæður í náttúrufari þjóðarinnar hafi átt mikinn þátt í þessu. Ég held að með kólnandi veðurfari hafi það verið alveg ljóst að miklu erfiðara var að ná þjóðinni saman til þings. Fróðlegt er að skoða einmitt þá hitafarssögu sem vísindamenn okkar geta núna lesið úr borkjörnum jöklanna og bera saman við þessa þróun. Það fellur alveg saman, herra forseti. Samgöngur og tæknilegir örðugleikar voru því fyrst og fremst þau atriði sem hafa leitt til þess að fulltrúalýðræðið var tekið upp vegna þess að það var auðvelt í framkvæmd.

Nú er auðvitað annað uppi, herra forseti. Nú eru samgöngur ekki lengur sá tæknilegi annmarki á framkvæmd slíkrar kosningar sem áður voru og jafnframt blasir það við að tæknin er gjörbreytt. Menn geta framkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu með allt öðrum hætti í krafti tækninnar en áður. Víða um lönd hafa menn tekið upp rafrænar kosningar og ég vek eftirtekt á því að í frv. til fjárlaga næsta árs kemur fram að dómsmrn. ætlar að verja 2 millj. kr. í tilraunaverkefni á sviði rafrænna kosninga. Þeim rökum hefur sömuleiðis oft verið beitt að mjög erfitt sé að bera mál undir þjóðina. Yfirleitt séu þau mál sem þannig þyrfti að útkljá flókin og erfitt sé að koma upplýsingum á framfæri til þjóðarinnar. Þetta eru rök sem ég held að til skamms tíma hafi átt nokkurn rétt á sér. Þess vegna hafi menn farið þá leið að láta fulltrúana á þjóðþinginu taka ákvörðun um mál af þessu tagi vegna þess að þeir eiga miklu auðveldar með að afla sér þeirrar vitneskju sem þarf með því að ráða ráðum sínum með ýmiss konar sérfræðingum og því hafi það verið hin eðlilega aðferð lýðræðisins að taka ákvarðanir í flóknum málum með þessum hætti. Þetta hefur verið rétt svona fram á allra síðustu ár. Nú blasir við að breytingar á tækni, sem er ekki hægt að kalla neitt annað en gjörbyltingu, gera það að verkum að tiltölulega auðvelt er fyrir alla þjóðina að verða sér úti um upplýsingar á tiltölulega auðveldan máta. Hér á ég auðvitað við netið, herra forseti. Fyrir liggur að Íslendingar eru sú þjóð sem hefur þjóða fljótast og í mestum mæli tekið netið í þjónustu sína og skammt er til þess að hér vaxi upp kynslóðir þar sem varla er nokkur maður sem ekki kann á þá tækni.

[16:15]

Þess vegna er miklu auðveldara nú en áður fyrir þjóðina, fyrir hvern sem er að afla sér upplýsinga um mál sem e.t.v. eru í eðli sínu mjög flókin. Og það er það sem ég á við, herra forseti, að frv. sem við þrír þingmenn Samfylkingarinnar flytjum hérna er ekki bara í takt við tíðarandann heldur er það í takt við breytta tækni.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé rétt á þessu augnabliki þegar við erum svo að segja að ganga yfir í ekki aðeins nýja öld heldur nýtt árþúsund, að velta því fyrir okkur í fullri alvöru hvort ekki sé rétt að taka upp vísi að beinu lýðræði með þessum hætti. Ég kysi, herra forseti, að það skref sem stigið væri yrði miklu lengra og stærra en það örlitla skref sem við þingmennirnir þrír leggjum til með frv. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að umræðan um þetta er skammt á veg komin og áhuginn hér á landi er ekki mikill. En ég undirstrika að rökin sem menn beittu áður gegn því að bera mál, jafnvel flókin, undir þjóðina standast ekki lengur vegna þeirra breytinga sem hafa orðið síðustu áratugi á samgöngum og tækni sem menn notuðu til þess að greiða atkvæði en ekki síst upplýsingatæknin gerir það að verkum að engum á að vera skotaskuld að afla sér þeirra upplýsinga sem menn þurfa.

Það má líka nefna þær breytingar sem hafa orðið á fjölmiðlum hér á Íslandi. Fjölmiðlar hafa í vaxandi mæli tekið sér það hlutverk fyrir hendur að útskýra út í hörgul mjög flókin mál fyrir þjóðinni. Ég bendi t.d. á umfjöllun ríkissjónvarpsins, umfjöllun Morgunblaðsins um þau viðkvæmu deilumál sem varða hálendið á allra síðustu missirum. Þessum fjölmiðlum má segja til hróss að jafnvel þeir einir og sér hafa gert það að verkum að enginn, sem er á annað borð fær um að lesa, velkist í vafa um þær staðreyndir sem þarf að taka afstöðu til í því máli.

Það er auðvitað svo, herra forseti, að við getum horft til margra ríkja um fyrirmynd í þessum efnum. Ég nefni Sviss sem má segja að sé hin nútímalega vagga hins beina lýðræðis. Þar í landi taka menn ákvörðun um hvaðeina í atkvæðagreiðslum, stórmál í þjóðaratkvæðagreiðslum, minni mál í atkvæðagreiðslum innan ríkja eða fylkja og enn smærri mál í einstökum borgum og bæjarsamfélögum. Ég vísa til þess, herra forseti, að til skamms tíma var Sviss í fararbroddi í Evrópu hvað varðaði velsæld og mannréttindi. Það er því með engu móti hægt að segja að þessi máti Svisslendinga til þess að taka ákvarðanir hafi með nokkrum hætti orðið þeim fjötur um fót á leið þeirra til velsældar.

Meira en helmingur ríkjanna í Bandaríkjum Norður-Ameríku hafa tekið upp beinar kosningar um einstök mál og nota til þess rafræna tækni, stundum með mjög dramatískum niðurstöðum. Og í Ástralíu, þar sem lýðræðishefðin er sérstaklega sterk, hafa verið næstum því 50 þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir utan fjölda atkvæðagreiðslna sem hafa verið haldnar innan einstakra fylkja. Ítalía er jafnframt land þar sem hugmyndin um hið beina lýðræði hefur vaxið verulega á síðustu árum og það má segja að þjóðaratkvæðagreiðslurnar á Ítalíu á árunum 1991 og 1993 hafi átt verulegan þátt í að brjóta upp spillinguna sem hafði grafið um sig í stjórnkerfi Ítala og þannig rutt Ítalíu brautina inn í nútímann. Ég vísa til þess að Ítalía er einmitt eitt af þeim ríkjum sem eiga hvað mestri velgengni að fagna á hinu efnahagslega sviði nú um stundir í Evrópu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa líka verið notaðar í Kanada og ýmsum samveldislöndum Breta og mjög mikilvægar atkvæðagreiðslur hafa, eins og við þekkjum, verið haldnar í nágrannalöndunum t.d. Danmörku. Ég vísa sérstaklega til fordæmis Nýsjálendinga þar sem sterk hreyfing er fyrir því að beint lýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslna verði tekið upp og þar er í gangi mjög merkt tilraunverkefni sem er stutt bæði af einkageiranum, stórfyrirtækjum, háskólum og ríkinu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir tæknilegri útfærslu þeirra hugmynda sem liggja hérna fyrir. Formið og heimildin til þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað mismunandi í löndum sem hafa tekið það upp. Í sumum ríkjum er það stjórnarskrárbundið að almenn atkvæðagreiðsla kjósenda skuli fara fram um tiltekin lög eða lagafrumvarp, í öðrum tilvikum veita stjórnarskrár skilorðsbundna heimild til þjóðaratkvæðis þannig að ákveðnum aðilum, t.d. ákveðnum hópi þingmanna eins og hv. þm. rakti eða tilteknum fjölda kjósenda eins og er að finna í þessu frv. er veittur réttur til þess að krefjast þjóðaratkvæðis um nánar tilgreind lög eða lagafrumvörp. Ef lagafrumvarpið nær ekki tilskildu atkvæðamagni, sem er í sumum tilvikum aukinn meiri hluti, í öðrum bara einfaldur, er frumvarpið úr sögunni og verður ekki lagt fyrir þjóðhöfðingjann til staðfestingar.

Hér á landi er ekki mikil hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en ég vek eigi að síður eftirtekt á því, herra forseti, að fimm sinnum á þessari öld hafa Íslendingar framkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslur. Árið 1905 samþykktu 60% kjósenda að banna skyldi aðflutning á áfengi til landsins, árið 1915 samþykkti Alþingi með 80% að hafna að lögbjóða skyldi þegnskylduvinnu allra heilbrigðra karlmanna, 1918 voru dansk-íslensku sambandslögin lögð undir þjóðaratkvæði og samþykkt með næstum því 91% atkvæða, og 1933 var síðan hafnað að halda áfram banni gegn innflutningi á áfengi til landsins. Merkasta þjóðaratkvæðagreiðslan var auðvitað sú sem var háð 25. febrúar 1944 í krafti þál. sem samþykkt var þann dag og leiddi til þess að dansk-íslenski sambandslagasamningurinn féll niður og við urðum lýðveldi.

Því má segja, herra forseti, að merkustu atburðirnir í sögu okkar á þessari öld sem þjóðar hafi verið ákveðnir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Á seinni árum hefur hljómgrunnur fyrir þessu verið lítill en ég vek þó athygli á því að 1983 lagði Gunnar Thoroddsen, sem ég held að hafi verið forsrh. þá, fram frv. þar sem gert var ráð fyrir að tekin yrði upp heimild í stjórnarskrána til þjóðaratkvæðis. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti hérna áðan hefur það aftur og aftur komið fram að þingmenn hafa viljað taka upp þjóðaratkvæði. Röksemdin hefur mjög oft verið sú að í stjórnarskrána skorti þennan rétt okkar sem flestar nágrannaþjóðir hafa.

Herra forseti. Ég tel að sú deila sem uppi hefur verið, og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi í ræðu sinni, og varðar til að mynda Eyjabakkana sýni í hnotskurn galla lýðræðisins að þessu leyti. Við vitum að meðal þjóðarinnar er yfirgnæfandi vilji til þess að í því tiltekna máli verði úrslit ráðin með því að efnt verði til lögformlegs mats á umhverfisáhrifum. Endurteknar skoðanakannanir hafa sýnt að það er yfirgnæfandi vilji allra Íslendinga, sama hvar í flokki þeir standa. Hér á Alþingi notar hins vegar ríkisstjórnin hnefaréttinn til að snúa niður stjórnarliða til að koma í veg fyrir að það sem þeim raunverulega finnst í þessum málum fái að koma fram. Við vitum það auðvitað, herra forseti, að ríkisstjórnin er í því tiltekna máli að nota afl sitt til að koma í gegn máli sem nýtur mjög lítils minnihlutastuðnings meðal þjóðarinnar.

Er það rétt? Það er lagalega í lagi, siðferðilega er það rangt en ríkisstjórnin er með þeim hætti að notfæra sér þann rétt sem lögin bjóða. En það er samt sem áður alveg ljóst að með þessu er verið að taka réttinn af Íslendingum til að segja hvað þeim finnst í þessu dýpsta og erfiðasta deilumáli seinni ára. Hvernig á, herra forseti, að leysa mál af þessu tagi, mál sem hafa verið í deiglunni núna í þrjú missiri, sem allir stærstu fjölmiðlar landsins hafa fjallað um frá öllum hliðum og allir hafa nægar upplýsingar til þess að taka ígrundaða afstöðu gagnvart?

Þjóðin fær ekki að gera það. Eyjabakkar og Fljótsdalsvirkjun eru skólabókardæmi um mál sem á að útkljá með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef sú leið er ekki farin mun deilan skilja eftir sig sár í þjóðarvitundinni sem munu gróa mjög seint. Ég tek þetta sem dæmi vegna þess að leið þjóðaratkvæðagreiðslunnar er eina aðferðin sem þjóð, sem vill halda friðinn og vera samstæð, getur notað til þess að útkljá mál af þessu tagi.

Ég held því, herra forseti, að við stöndum andspænis því að núna eru að rísa úfar með þjóðinni sem er ekki hægt að koma í veg fyrir að þróist í mjög viðkvæmt og langvarandi deilumál, nema með aðferðum af þessu tagi. Þess vegna segi ég, herra forseti, að endingu að það er ekki einungis það mál sem gerir þetta tímabært og ætti að verða okkur víti til varnaðar því að fleiri slík deilumál munu efalítið koma upp á næstu árum heldur er það líka, eins og ég hef rakið hérna, gjörbreytt tækni sem gerir möguleikana á að heyja kosningar með því móti auðveldari en áður, miklu ódýrari en áður og mögulegt líka að framkvæma kosningarnar á grundvelli upplýstrar umræðu og þekkingar. Það var ekki hægt áður, herra forseti, í mörgum tilvikum en þau rök eru fallin með breyttri tækni.