Málefni innflytjenda á Íslandi

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 17:36:36 (936)

1999-11-01 17:36:36# 125. lþ. 16.8 fundur 91. mál: #A málefni innflytjenda á Íslandi# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það gætir tvískinnungs í framkomu okkar Íslendinga og afstöðu til innflytjenda á Íslandi, svokallaðra nýbúa. Annars vegar bjóðum við fólk velkomið hingað til lands og það gerum við með bros á vör og í orði en við fylgjum því ekki nægilega vel í reynd, á borði. Ég vil nefna eitt dæmi máli mínu til stuðnings um skólagöngu innflytjenda, Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir og hafa kosið að flytja hingað til lands.

Í nýútgefinni aðalnámskrá grunnskóla, sem er afskaplega merkt plagg, kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir að börn innflytjenda hljóti menntun, ekki einasta í íslensku og íslenskri menningu heldur ekki síður á sínu eigin móðurmáli. Gera á börnunum kleift að viðhalda sinni eigin menningu, menningu þess lands sem þau koma frá. Þetta eru nýmæli í aðalnámskrá grunnskóla og það segir sig sjálft að nýmæli af þessu tagi kosta afskaplega mikið fé. Þá erum við komin að því viðkvæma máli að tekjustofnar sveitarfélaganna til menntamála hafa ekki verið það miklir að mögulegt sé að fjármagna allar þær nýjungar sem aðalnámskrá grunnskóla leggur þeim á herðar. Þetta er mjög skýrt dæmi um það og jafnframt skýrt dæmi um það sem við ætlum okkur að taka vel á, í orði. Auðvitað er sjálfsagt að við sýnum innfluttum Íslendingum þá rausn að þeir geti viðhaldið menningu sinni. Með því erum við að tryggja mannauð viðkomandi einstaklings, með því erum við að tryggja að manneskjan sem um ræðir geti nýst samfélagi okkar og verið því auðlind. Við tölum oft um mannauð og við viljum sannarlega, í orði, að hann fái notið sín en gleymum oft að verkin þurfa að tala líka. Við þurfum vera samkvæm sjálfum okkur í orði og á borði.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist á það hér að þegar Íslendingar flytja á milli Norðurlandanna þá er okkur afskaplega vel tekið. Við fáum þær móttökur að félagsráðgjafar eða þeir sem hafa þann starfa að taka á móti innflytjendum taka á móti okkur og við fáum persónulega uppfræðslu um rétt okkar. Okkur er kynntur sá réttur sem við eigum. Við erum spurð þeirra spurninga sem þarf að spyrja um tekjur okkar eða möguleika okkar til tekjuöflunar, um börnin okkar og skólagöngu þeirra, um meðlög, ef um slíkt er að ræða --- alla slíka þætti.

Ég veit til þess að bæklingar eru látnir gegna þessu hlutverki á Íslandi, en það nægir ekki. Því til staðfestingar nefni ég að æ ofan í æ kemur það fyrir að innflytjendur á Íslandi eru ekki meðvitaðir um að börnin þeirra eigi rétt á skólanámi. Það hefur ítrekað komið í ljós, jafnvel mörgum vikum eftir að skólar hefjast, að börn innflytjenda sitja heima vegna þess að þeir hafa óvart ekki tekið með sér bæklingana sem greindu þeim frá þessum rétti barna til skólagöngu. Þarna vil ég meina að pottur sé brotinn og þarna verðum við að bæta úr.

Virðulegi forseti. Mergurinn málsins er fólginn í niðurlagi greinargerðar þessarar þáltill. Þar segir að ýmsar tillögur hafi litið dagsins ljós varðandi málefni innflytjenda, t.d. er nefnt til sögunnar nefndarálit um stöðu og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi sem að menntmrn. gaf út árið 1997. Vandinn er hins vegar fólginn í því að tillögur þær og hugmyndir sem við höfum á borðum okkar um þennan málaflokk eru bara í stafla og ekki nýttar. Þess vegna vil ég meina að hér sé á ferðinni afskaplega þörf tillaga og góð. Það kostar ekki mikið að fara í gegnum þann hugmyndabunka sem við eigum og koma einhverjum þeim hugmyndum í framkvæmd.