Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:22:30 (940)

1999-11-02 14:22:30# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið til að svara að hluta til þeim fyrirspurnum sem komu fram hjá hv. þm. Ég byrja á norðlægu víddinni. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að hin norðlæga vídd hefur ekki verið algjörlega skilgreind. Ég hef viljað skilja hana þannig að hún nái yfir samstarfssvið Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins. Við höfum reynt í viðleitni okkar að draga upp þær áherslur. Í þeim drögum sem lágu fyrir fyrir stuttu síðan var ekki gert ráð fyrir t.d. hafsvæðunum í kringum Ísland. En utanrrn. með sendiráðið í Brussel í fararbroddi beitti sér fyrir ráðstefnu um hina norðlægu vídd sem var afar vel heppnuð. Þangað buðum við fulltrúum margra þjóða. Þangað komu t.d. fulltrúar allra Norðurlandanna, Evrópusambandsins og Rússa. Samstaða var um það í lok ráðstefnunnar að breyta þessum skilgreiningum. Ég vil einnig benda á að utanríkisráðherrum landa utan Evrópusambandsins hefur verið boðið til að fjalla um norðlægu víddina á næstunni á fundi í Helsinki þannig að við væntum þess að geta haft þarna nokkur áhrif.

Hv. þm. átaldi að ekki væri minnst á nokkur mál. Ég get tekið undir það að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða. Ég gat ekki tímans vegna farið yfir allt. Það hefði líka verið ástæða til að fjalla í þessari ræðu um átökin í Tsjetsjeníu og ýmislegt annað alvarlegt sem er að gerast í heiminum. En ég vænti þess að í umræðunni gefist tækifæri til að ræða þessi mál.