Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:36:06 (975)

1999-11-02 16:36:06# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir góð orð í garð starfsfólks utanrrn. Það liggur ljóst fyrir að þar er unnið mikið starf og þar leggja menn mikið á sig, enda verðum við að vinna með þeim hætti. Við erum með mjög fámenna utanríkisþjónustu og okkar fólk þarf að leggja mun meira á sig til að halda í við aðrar þjóðir á þessu sviði. Það eru margir sem undrast það hvað við komumst yfir mikið með því fámenna starfsliði sem við höfum yfir að ráða og það er mikilvægt fyrir starfsfólk utanrrn. að finna að þau störf séu metin því að ráðuneytið er ekki eingöngu að vinna í þágu þess eina ráðuneytis heldur allra annarra ráðuneyta, forsrn. og umhvrn. og jafnframt forsetaembættisins. Það er mikilvægt fyrir það fólk að störf þess séu virt og ég þakka fyrir það.

Að því er varðar Vestur-Evrópusambandið þá höfum við tekið það mál mjög alvarlega, eins og hv. þm. sér í ræðu minni. Við teljum að þar sé um breytingar að ræða sem geta skipt miklu í samskiptum okkar í framtíðinni við Evrópusambandið og það sé e.t.v. mikilvægasti prófsteinninn á það samstarf alveg á næstunni. Við höfum tekið það mál upp við hvert einasta tækifæri sem við höfum haft möguleika á, núna síðast á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna ásamt utanríkisráðherra Þýskalands og það var aðalmálið á þeim fundi þó að það hafi ekki verið hugmyndin í upphafi. Þetta mál verður tekið upp á sérstökum fundi sem haldinn verður í Brussel væntanlega 15. þessa mánaðar. Það verður síðan ráðherrafundur Vestur-Evrópusambandsins í Lúxemborg 22. og 23. nóvember sem ég mun sitja, hefði ekki setið ef aðstæður hefðu ekki verið eins og þær eru, þannig að við munum leggja mikið kapp á það ásamt Norðmönnum að taka á þessu máli á næstu vikum.