Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:15:51 (988)

1999-11-02 17:15:51# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að mínu mati er mjög mikilvægt að koma sjónarmiðum á framfæri þegar eitthvað er um að vera. Ég er alveg viss um að undir slíkum kringumstæðum er hægt að hafa meiri áhrif og ég er sannfærður um að þessi ferð hafði áhrif. Ég get því ekki fallist á að það hafi verið rangt að fara hana. Hvaða skilaboð hefðu falist í því að ákveða fyrst að fara þessa ferð, ákveða það af þingmannasamtökum Evrópuráðsins að þessi ferð yrði farin, og fresta henni svo vegna þess að það voru kosningar í landinu? Það liggur líka fyrir að það var beiðni um það af hálfu stjórnarandstöðunnar í Úkraínu að eftirlit yrði aukið og fylgst yrði betur með. Er það þá svo að í hvert skipti sem kosningar eru í nánd í viðkomandi löndum, sem við viljum hafa áhrif á, að þá eigi þeir sem berjast fyrir mannréttindum, lýðréttindum og lýðræði að halda sig til hlés? Ég tek undir það með hv. þm. að það er mikilvægast í utanríkisstefnu okkar að berjast fyrir réttlæti, lýðræði og mannréttindum. En við eigum að hafa þor til að ræða þau mál á öllum tímum en hætta ekki við vegna utanaðkomandi þrýstings. Ég var á tímabili með vissar efasemdir í þessu máli en var þó alla tíð mjög fastur í því að ferðin yrði farin. Aðrir voru með meiri efasemdir en það var samdóma álit okkar sem fórum þessa ferð að það hafi verið rétt. Ég vænti þess að sagan eigi eftir að leiða það í ljós.