Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:46:51 (1008)

1999-11-02 18:46:51# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að taka undir sjónarmið mín varðandi norræna samvinnu. Hins vegar kemur það mér ekki sérstaklega á óvart að hann er ekki hrifinn af afstöðu minni til NATO. Það hefur hann sjálfsagt aldrei verið. Það hefur aldrei farið leynt hver afstaða mín til hernaðarbandalagsins NATO er þó að ég hafi kannski linast fullmikið í afstöðunni eins og ég sagði áðan og sofnað á verðinum.

Ég er ósammála hæstv. ráðherra varðandi það að Ísland geti ekki staðið utan við atburði eins og þegar Bandaríkin ákváðu að hefja loftárásir á Júgóslavíu. Ég tel að við hefðum átt að standa utan við þær og aldrei átt að lýsa sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir. Hvers vegna skyldum við vera sammála Bandaríkjamönnum um þessar loftárásir fyrst það var ekki samkomulag um þær innan herforingjaráðs NATO? Við vitum að þar var bullandi ágreiningur. Hvers vegna skyldum við alltaf vera kaþólskari en páfinn þegar kemur að umræðunni um NATO? Mér finnst allt í lagi að við séum gagnrýnin á það sem NATO gerir. Varðandi það að við í Samfylkingunni þurfum að koma okkur saman um afstöðuna til NATO þá er það svo að stórir jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum hafa mismunandi afstöðu til stórra mála eins og t.d. inngöngu í Efnahagsbandalagið. Þingkona norskra jafnaðarmanna sagði mér um daginn að 40% þingmanna norskra jafnaðarmanna væru andvígir aðild að Evrópubandalaginu en samt er það yfirlýst stefna norska jafnaðarmannaflokksins.